Innlent

Nóg að gera hjá lögreglu

Lögreglan í Reykjavík hafði í nógu að snúast í gærkvöld og í nótt, vegna innbrotsþjófa, ölvunaraksturs og kertabrunar. Eldur kviknaði á tveimur heimilum í borginni vegna útikerta í gærkvöld. Annar bruninn varð í fjölbýlishúsi við Háaleitisbraut um klukkan sex og þurfti að flytja þrjá á slysadeild vegna brunasára og gruns um reykeitrun. Kertið var úti á svölum og náði eldurinn að læsa sig í gluggatjöld svo úr varð mikið bál. Þremur klukkustundum síðar var slökkviliðið aftur kallað út vegna kertabruna á svölum, en þá við Ljósheima. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og skemmdir af hans völdum eru óverulegar.  Innbrotsþjófar virðast hafa sætt lagi þegar fólk yfirgaf heimili sín á aðfangadagskvöld. Búið var að stela öllu steini léttara út íbúð í Grafarholti þegar heimilismenn komu úr jólaboði um miðnætti. Í Hólahverfi í Breiðholti var brotist inn í tvær íbúðir í sama stigagangi. Úr annarri íbúðinni höfðu þjófarnir á brott með sér tölvu og kaldan bjór úr ísskápnum, en úr hinni stálu þeir hátölurum, sjónvarpstæki og dvd spilara. Þjófarnir eru ófundnir. Tveir ökumenn voru teknir vegna ölvunaraksturs í borginni í gærkvöld. Annar þeirra vakti athygli starfsmanna Neyðarlínunnar um klukkan hálf sjö, vegna þess hversu erfiðlega honum gekk að leggja bíl sínum og burðast með jólagjafir úr honum. Við nánari athugun kom í ljós að maðurinn var svo drukkinn að hann var vart talandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×