Innlent

Vonskuveður fyrir norðan

Vonskuveður á Norðurlandi setti strik í reikninginn hjá mörgum. Fólk komst hvorki lönd né strönd og björgunarsveitarmenn hafa verið við störf í alla nótt og morgun. Á Akureyri gekk vel framan af kvöldi, en um klukkan hálf þrjú um nóttina barst lögreglu tilkynning um að togari í slipp væri við það að losna frá bryggju. Með aðstoð dráttarbáts tókst að koma togaranum að kanti á ný. Slökkvilið Akureyrar óskaði svo eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Súlna vegna sjúkraflutninga frá Fnjóskadal. Fara átti með lækni og sjúkraflutningsmann á sérútbúnum bílum sveitarinnar, en það reyndist þó ekki nauðsynlegt þar sem sjúklingurinn, sem hafði ofkælst alvarlega, var farinn að sýna töluverð batamerki og talinn úr lífshættu. Að sögn lögreglumanna á Akureyri er bærinn nánast ófær, nema hvað að vel útbúnir jeppar komast áfram. Mælt er með því að bæjarbúar haldi sig heima við, en útvarpsmessu sem átti að vera klukkan ellefu var frestað. Mjög blint er, skyggnið í besta falli tveir til fimm metrar og hafa lögregla og björgunarsveitarmenn á sérbúnum bílum þurft að aðstoða fólk við að komast til vinnu í morgun. Á Húsavík er einnig allt ófært, en þar taldi viðmælandi fréttastofunnar að tekið væri að hlýna, því væri snjórinn þyngri og fjúk ekki neitt. Þar voru lögreglumenn og björgunarsveitir að störfum í alla nótt við að koma fólki til síns heima. Lögreglumaður á Húsavík sagði elstu menn ekki muna eftir sambærilegum veðurham á jólum, en í bænum eru mannhæðarháir skaflar á köflum og einingis fyrir vel búna og breytta jeppa sem búið er að hleypa einhverju lofti úr dekkjunum á að komast leiðar sinnar og það dugir ekki alls staðar til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×