Innlent

Tvöfalt fleiri kærur vegna efnahagsbrota

Jón H.B. Snorrason. Fjölgun starfsmanna efnahagsbrotadeildar er ekki í samræmi við fjölgun kærumála eða aukningu fjárframlaga. Yfirmaður deildarinnar segir að ákjósanlegast væri að fjölga starfsmönnum um allt að tíu. Það myndi draga úr starfsálagi og stytta þann tíma sem tekur að rannsaka hvert mál.
Jón H.B. Snorrason. Fjölgun starfsmanna efnahagsbrotadeildar er ekki í samræmi við fjölgun kærumála eða aukningu fjárframlaga. Yfirmaður deildarinnar segir að ákjósanlegast væri að fjölga starfsmönnum um allt að tíu. Það myndi draga úr starfsálagi og stytta þann tíma sem tekur að rannsaka hvert mál.

Fjárframlög til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra úr ríkissjóði hafa ríflega tvöfaldast á síðustu fimm árum. Fjárveiting til deildarinnar var í fyrra um 119 milljónir krónar en rúmar 58 milljónir 2001, samkvæmt upplýsingum frá Jóni H.B. Snorrasyni, yfirmanni efnahagsbrotadeildar.

Fjöldi mála og starfsmannafjöldi hefur að sama skapi aukist. Árið 2001 bárust efnahagsbrotadeild 202 kærumál og störfuðu tólf manns við deildina. Árið 2004 voru málin 410 og starfsmennirnir fimmtán. Starfsmönnum hefur því fjölgað um fjórðung á sama tíma.

Jón segir að aukin umsvif deildarinnar megi að mestu leyti skýra með því að eftirlitsstofnanir eins og fjármálaeftirlitið, skattrannsóknarstjóri og fiskistofa hafa aukið verulega eftirlit sitt.

"Þessar stofnanir hafa verið styrktar og leiðir það til þess að kærumálum hjá okkur, sem koma að stórum hluta frá þessum stofnunum, hefur fjölgað verulega," segir Jón. Hann bendir á að jafnframt megi skýra hluta rekstrarfjáraukningarinnar með því að starfsmenn hafi fengið samtals um tuttugu prósenta launahækkun á tímabilinu.

Aðspurður segir hann erfitt að bera umsvif íslensku efnahagsbrotadeildarinnar hlutfallslega saman við samsvarandi deildir á Norðurlöndunum. "Í Svíþjóð er embættið með vel á fimmta hundrað starfsmenn, í Noregi eru um 150 starfsmenn og í Danmörku eru starfsmenn um 120," segir Jón. Hann segir að efnahagsbrotadeild Svía sé skylt að taka fyrir öll þau mál sem til hennar berist en Norðmenn geti valið hvaða mál séu tekin til rannsóknar. "Í Noregi eru efnahagsbrotamál hjá lögreglu nema þau sem deildin tekur sérstaklega til sinnar rannsóknar," segir Jón.

Á Íslandi rannsakar efnahagsbrotadeild öll skattamál því lögreglustjórarnir eru vanhæfir til þess því þeir eru innheimtumenn ríkissjóðs, að sögn Jóns. "Auk þess rannsökum við tollsvik og kærur frá Fjármálaeftirlitinu og einnig erfiðari og þyngri fjársvikamál," segir hann.

Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram á Alþingi undanfarin misseri að fjárframlög til efnahagsbrotadeildar séu ekki nægileg og að skortur á fjármagni valdi því að deildin geti ekki sjálf haft frumkvæði að rannsóknum. Aðspurður segist Jón sammála þessu sjónarmiði og segir það nokkuð óumdeilt. Hann segir erfitt að meta hversu mikið auka þurfi fjárframlög. "Það fer eftir því hvað menn vilja að við séum með nefið víða," segir hann. Ákjósanlegast væri þó að geta fjölgað starfsmönnum í tuttugu til tuttugu og fimm, það myndi draga úr starfsálagi og stytta þann tíma sem tekur að rannsaka hvert mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×