Innlent

Björgunarsveitarmenn sendir út

Óttast var að ölvaður maður, sem rauk út af heimili sínu í gærkvöld, illa klæddur, yrði úti. Nærri hundrað björgunarsveitarmenn leituðu mannsins í gærkvöldi. Allar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út rétt upp úr klukkan átta í gærkvöld að beiðni lögreglunnar í Reykjavík til leitar fertugum manni sem fór frá heimili sínu í Vogahverfinu um kvöldmatarleitið. Maðurinn var talsvert ölvaður þegar hann fór af heimili sínu og illa klæddur. Sökum veðurs og ástands mannsins var talin mikil hætta á því að hann myndi kólna mjög fljót og gæti orðið úti á stuttum tíma ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða án tafar. Um níutíu björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til leitar ásamt sporhundi og leituðu þeir Voga- og Sundahverfið með þeim árangri að um klukkan hálf ellefu fann leitarhópur manninn fyrir framan mannlaust fyrirtæki í Skútuvogi, en þar hafði hann hafði lagst fyrir og var orðinn mjög kaldur þegar að var komið. Honum var þegar komið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×