Erlent

Tyrkir fagna aðildarviðræðum

Athöfnin sem átti að marka upphaf aðildarviðræðna Tyrkja við Evrópusambandið klukkan þrjú í gærdag var haldin í nótt. Tyrkir fagna og það gera Króatar einnig því lausn Tyrkjadeilunnar þýðir pláss við samningaborðið fyrir þá. Sólarupprásin var fögur í Istanbúl, höfuðborg Tyrklands í morgun. Utanríkisráðherra landsins lagði af stað til fundar við samninganefnd Evrópusambandsins seint í gærkvöldi eftir að sólarhringsfundarhöld utanríkisráðherra ESB leiddu til þess að Austurríkismenn gáfu eftir og létu af andstöðu sinni við aðild Tyrklands að sambandinu. Tyrknesk yfirvöld hafa stefnt að þessu marki í mörg ár - rúm 40, segja sumir. Almenningur virðist með á nótunum því þótt þetta skref sé litið jákvæðum augum gera menn sér grein fyrir því að ekki fæst allt fyrir ekkert. Þar að auki er reiknað með að aðildarviðræðurnar taki um áratug. Aðalástæða andstöðu við inngöngu Tyrklands virðist vera af menningarlegum og þar með trúarlegum toga. 72 milljóna múslímaríki er stór viðbót við hina kristnu Evrópu. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag að það að taka Tyrkland inn í Evrópusambandið, þar sem kristnar þjóðir hefðu ráðið ríkjum til þessa, væri aðferð til að tengja kristni og íslam saman. Þetta sannaði að það væru engin átök á milli menningarheimanna tveggja heldur væri djúp gjá milli siðsmenntaðs fólks um allan heim sem vildi leggja siðmenninguna í rúst. En það voru fleiri en Tyrkir og örþreyttir samningamenn sem fögnuðu því að aðildarviðræðurnar gætu hafist. Króötum hefur loks verið boðið að samningaborðinu núna, en það hefur verið markmið Ivos Sanaders forsætisráðherra um langt skeið. Carla del Ponte, aðalsaksóknari Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag, hefur loks gefið grænt ljós á viðræður eftir að hafa þrýst á króatísk stjórnvöld um árabil að vera samvinnuþýðari og ganga harðar fram við að handsama og framselja stríðsglæpamenn sem enn ganga lausir í landinu. Það virðist því ekki munu verða nokkuð lát á útþenslu Evrópusambandsins á næstu árum því enn bíða fleiri Austur-Evrópulönd eftir því að komast í samningastólana sem Króatar og Tyrkir munu verma næstu árin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×