Skoðun

Hver datt á hausinn á Hofsvallagötunni?

Jón Kristjánsson skrifar
Ég er einn af þeim sem bý í Vesturbænum og á nokkuð oft erindi um Hofsvallagötuna. Þar er nýlokið framkvæmdum sem hafa verið umdeildar, en þær valda mér fyrst og fremst undrun. Hver datt á hausinn þarna og fékk hugmyndina að þeim?

Þarna var komið upp stíg fyrir hjólreiðamenn sitt hvoru megin við götuna. Það er ágætis mál og ekkert við það að athuga. Hins vegar hefði verið hófsamara að merkja þessa stíga á venjulegan hátt og ekki síst hefði það verið ódýrara fyrir borgaryfirvöld og skattgreiðendur í borginni. Síðustu tölur sem heyrast um kostnað við þessa reiðhjólamálningu eru ótrúlegar, jafnvel fyrir bæjarfélag sem á glás af peningum.

Þá er komið að öðrum framkvæmdum við götuna sem eru blómaker, sem eru enginn fegurðarauki, slegin saman úr krossvið. Síðan eru veifur á járnstöngum sem hefur verið komið fyrir með mikilli fyrirhöfn og efst tróna fuglahús hvít að lit. Allt þetta brambolt kostar milljónir króna og ég hef einhvers staðar lesið að öll kosti þessi framkvæmd 18 milljónir.

Þá berast þær fréttir að allt þetta sé aðeins til bráðabirgða. Það gerir nú allt málið enn þá vitlausara og vekur spurninguna hvort menn hafi dottið á hausinn þarna á götunni. Ef þetta verður tekið, hvað tekur þá við, lengri járnstengur, fleiri veifur og stærri fuglahús? Spyr sá sem ekki veit. Fyrir hvern voru þessi áform lögð á undirbúningsstigi? Tók einhver kjörinn fulltrúi okkar borgarbúa lokaákvörðun um þessa framkvæmdir?

Það er hið besta mál að auka hjólreiðar í borginni, og ég er sannfærður um það að ef látið hefði verið nægja að leggja hjólastígana með venjulegum greinilegum merkingum, þá hefði enginn sagt neitt.




Skoðun

Sjá meira


×