Fótbolti

„Þessir menn hefðu klárlega ekki átt að fá fjölmiðlamiða“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Samsett
Ísland lagði Albaníu 2-1 að velli í undankeppni HM 2014 á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Áhorfendur á Laugardalsvelli í gær tóku eftir fulltrúum Albana í blaðamannastúkunni. Þeir virtust lítinn áhuga hafa á því að skrifa um leikinn eða fjalla um hann á annan hátt. Þeir sveifluðu hins vegar fánum og treflum og studdu sitt lið af eldmóð.

Þannig er mál með vexti að fjölmiðlafulltrúi KSÍ, Ómar Smárason, fékk sendan lista frá Knattspyrnusambandi Albaníu yfir fulltrúa blaðamanna úr albönsku stéttinni fyrir leikinn. Um hefðbundna starfshætti er að ræða og á sama hátt ber Knattspyrnusamband Íslands ábyrgð á því að íslenskir blaðamenn sem fjalla um leiki erlendis séu í raun og veru blaðamenn.

Fimmtán til tuttugu Albanir mættu svo til þess að sækja miðana sína á Laugardalsvöll fyrir leikinn í gær. Enginn fjölmiðlafulltrúi var með hópnum í för en samkvæmt listanum sem knattspyrnuforystan í Albaníu sendi áttu þeir rétt á miðunum. Svo tyllti hópurinn sér í bestu sætin í vesturstúkunni, veifuðu fánum og treflum, hoppuðu og trölluðu.

„Þessir menn hefðu klárlega ekki átt að fá fjölmiðlamiða,“ segir Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, í samtali við Vísi.

Þar með er ekki sögunni af albönskum fjölmiðlamönnum lokið.

Ragnar Sigurðsson, miðvörður landsliðsins, á hlaupabrautinni fyrir framan vesturstúkuna eftir sigurinn í gærkvöldi.Mynd/Valli
Rúv sýndi beint frá leiknum. Rúv var að undirbúa útsendingu sína á Laugardalsvelli þegar albanskur karlmaður vatt sér upp að tökumanni Rúv á hlaupabrautinni. Albaninn tilkynnti tökumanninum að hann væri fjölmiðlamaður og ætti pantað sjónvarpsviðtal til að senda til útlanda.

Starfsfólk Rúv hafði ekki heyrt af því að albanskir sjónvarpsmenn ættu bókaðan tíma með tökumanni. Hins vegar hafði svissneskur fjölmiðill átt bókaðan tíma klukkan 17:30 en Albaninn sagðist eiga tíma bókaðan klukkan 18:30. Kristín segir starfsfólk sitt hafa talið að um misskilning gæti verið að ræða, líklega hefðu Albanir átt tíma bókaðan en ekki Svisslendingar, og leyft Albananum að taka upp „standara“ sem hann og gerði.

Í kjölfarið tilkynnti Albaninn að hann ætti einnig bókaðan tíma fyrir viðtöl eftir leikinn. Þá hafði Kristín Harpa Hálfdánardóttir, íþróttastjóri Rúv, fengið veður af málinu og hringt í fulltrúa fyrirtækisins Sportfive sem sér um framleiðslu á leiknum.

„Þeir segjast ekki meðvitaðir um að nokkur albanskur fréttamaður eigi tíma bókaðan og spyrja mig hvort ég viti frá hvaða miðli hann sé,“ segir Kristín. Þegar hún ætlaði að spyrja albanska blaðamanninn var hann horfinn.

Nokkru síðar var Kristín kominn á þriðju hæð Laugardalsvallar þar sem Rúv var með stúdíóið sitt. Þá sá hún albanska huldumanninn á hlaupabrautinni.

„Ég hleyp niður og spyr hann frá hvaða fyrirtæki hann sé. Hann segist vera frá sjónvarpsstöð sem heiti TVsh og hann eigi pantað viðtal eftir leikinn,“ segir Kristín. Hún tjáði honum að það gengi ekki upp enda hefði hún rætt við Sportfive sem hefði enga slíka beiðni fengið.

„Ég sagði honum að hann yrði að ræða við sína menn og panta viðtalið í gegnum Sportfive,“ sagði Kristín sem fékk nafnið á viðkomandi blaðamanni. Í kjölfarið ræddi hún við Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúa KSÍ, og spurði hvort hann hefði nafn viðkomandi á lista yfir fulltrúa albönsku pressunnar. Nafn mannsins var ekki að finna á blöðum Ómars.

„Hann gufaði upp. Við höfum hvorki séð tangur né tetur af honum síðan ég sagði honum að hann fengi engin viðtöl án þess að bóka viðtal við Sportfive,“ segir Kristín Harpa.

Albaninn mætti svo ekki í viðtöl eftir leikinn og hefur ekki spurst til hans síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×