Skoðun

Þannig má lækka verð á gistingu um allt land

Þórir Garðarsson skrifar

Á mjög mörgum heimilum er byrjað að spá í ferðir innanlands í sumarfríinu. Á sama tíma naga eigendur hótela og gististaða á sér neglurnar vegna óvissu um hvort þeir geti haft opið.

Jafnvel þó gistinóttum Íslendinga fjölgi, þá vantar samt 90% viðskiptavinanna – erlendu ferðamennina. Undir þessum kringumstæðum er erfitt að hafa opið eða lækka verð á gistingunni. Kostnaðurinn er einfaldlega svo mikill við að hafa opið, fyrst og fremst launakostnaður. Hátt verð á gistingu fælir hins vegar frá þannig að málin eru í sjálfheldu.

Þetta má leysa með því að slá tvær flugur í einu höggi.

Við mjög mörgum hótelum og gististöðum, sérstaklega á landsbyggðinni, blasir við að loka og senda starfsfólk á atvinnuleysisskrá til að gera ekki neitt. En þess í stað væri hyggilegt að gera gististöðunum kleift að hafa viðkomandi einstaklinga í vinnu á launum með styrk frá atvinnuleysistryggingasjóði, það eru fordæmi fyrir því.

Með lækkun launakostnaðar gætu hótelin og gististaðirnir lækkað verð gistingar umtalsvert og komið þannig til móts við þá fjölmörgu landsmenn sem vilja ferðast um landið og skapa þar með veltu og viðskipti í þjónustugreinum á landsbyggðinni.

Eðlilegt er að spyrja hvernig tryggja megi að slíkar ráðstafanir skili sér í lækkuðu gistiverði. Svarið við því er afar einfalt: samkeppnin sér til þess. Gististaðir munu slást um viðskiptin á netinu. Ljóst er að lækkun gistikostnaðar leiðir til stóraukinna ferðalaga landsmanna, miklu meiri en ella hefði orðið.

Uppbygging hótela, og gistihúsa og annarra þjónustugreina á landsbyggðinni hefur að miklu leyti byggst á fjölgun erlendra ferðamanna. Með því að fá Íslendinga til að fylla í skörðin er hægt að draga verulega úr því tjóni sem annars blasir við. Útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs aukast ekkert, heldur minnka ef eitthvað er þar sem afleiddum störfum mun fjölga.

Allir vinna.

Höfundur er stjórnarformaður Allrahanda Gray Line.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×