Skoðun

Framtíð menntunar er framtíð þjóðarinnar

Lárus Sigurður Lárusson skrifar
Að lesa og skrifa hefur aldrei verið talið til menntunar á Íslandi, segir í Brekkukotsannál og vísar þar skáldið bæði með kímni en einnig alvöru til þess að Íslendingar hafa frá fornu fari verið menntaþjóð á sinn hátt. Menntun liggur nærri kjarna þjóðarinnar og skipar æ mikilvægari sess í þjóðfélaginu ekki síst þegar kemur að atvinnumarkaði og atvinnulífi. Fjárfestingar í menntun og rannsóknum skila sér margfalt til þjóðarinnar í formi nýsköpunar og framfara á öllum sviðum atvinnulífsins. Áframhaldandi fjárfestingar og uppbygging í menntakerfinu jafngildir fjárfestingu í framtíðinni.

Þróunin hefur þó ekki öll verið jákvæð í menntun þjóðarinnar síðastliðin ár. Iðnnám og verklegt nám hefur því miður farið varhluta af vexti menntakerfisins og á sumum sviðum hefur stöðnun átt sér stað. Þá hefur fjölbreytni í iðnnámi og verklegu námi ekki haldist í hendur við það sem gerist í bóklegu námi. Sífellt erfiðara reynist ungu fólki að ljúka iðnnámi sínu og virðist aðalhindrunin felst í því hversu erfitt er að komast á samning til þess að ljúka náminu. Hafa margir þurft frá að hverfa af þessum sökum og mörgum ráðlegt að nýta uppsafnaðar einingar til þess að ná sér frekar í stúdentspróf og ganga þá leið í gegnum menntakerfið.

Iðnmenntun er dýrmæt. Það er orðið brýnt að gera henni og verklegu námi hærra undir höfuð og styrkja þennan þátt menntakerfisins. Það þarf að gera með því að auka valkosti til starfsmenntunar og verklegrar menntunar í anda þess sem þekkist annars staðar í Evrópu. Gera þarf iðnnemum kleift að ljúka námi sínum með því að liðsinna þeim til að komast á samning eða endurskoða það kerfi og bjóða upp á aðrar raunhæfari leiðir til þess að ljúka námi.

Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíð þjóðarinnar. Sú fjárfesting má ekki vera einsleit og þarf að taka mið af ólíkum þörfum. Hún þarf að horfa til framtíðar og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins með fjölbreytni að leiðarljósi og atvinnutækifærum fyrir alla.




Skoðun

Sjá meira


×