Innlent

Tugmilljóna tjón á flugvél Flugstoða

Tugmilljóna tjón varð þegar flugvél Flugmálastjórnar, nú Flugstoða, hlekktist á í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli í hádeginu í dag. Átta manns um borð sluppu með skrekkinn en báðir spaðar vélarinnar skemmdust sem og hjólabúnaður og skrokkur þegar hún fór út af flugbrautinni á fullri ferð og braut niður flugbrautarljós og rafmagnskassa.

Flugvélin, tveggja hreyfla skrúfuþota af gerðinni Beachcraft King Air, var í flugtaksbruni til austurs eftir braut 13, austur-vestur braut Reykjavíkurflugvallar, og var að nálgast brautarmót norður-suður brautar þegar óhappið varð en þá var snjókoma á vellinum. Að sögn Þorkels Ágústssonar, forstöðumanns rannsóknarnefndar flugslysa, segir flugstjórinn að hann hafi hætt við flugtak þegar hann varð þess var að vélin lét ekki að stjórn. Af ummerkjum að dæma var flugvélin þá komin á mikla ferð því eftir að hún fór út af flugbrautinni hentist hún mörg hundruð metra eftir öryggissvæði, braut niður rafmagnskassa og flugbrautarljós, áður en hún stöðvaðist skammt frá austurenda brautarinnar. Skrúfublöð beggja hreyfla skemmdust, gat kom á skrokk og nefhjólið bognaði og áætluðu flugvirkjar að það gæti kostað nokkra tugi milljóna króna að gera við flugvélina og tveir mánuðir gætu liðið áður en vélin yrði flughæf á ný. Flugvirkjar skiptu um nefhjól áður en vélin var dregin í átt að flugskýli og þá sáu menn að annað aðalhjólið á vinstri hjólalegg var fast. Um borð í vélinni voru átta starfsmenn Flugstoða, tveir flugmenn og sex farþegar, á leið til Akureyrar í verkefni á vegum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×