Innlent

Engin ástæða til að örvænta yfir krónunni

Krónan getur lifað um langa framtíð og það er engin ástæða til að örvænta yfir henni. Þetta segir Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri.

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lýsti því yfir á gamlársdag að hann hefði miklar efasemdir um að Íslendingar gætu ekki búið við krónuna til frambúðar og formaður Samfylkingarinnar sagði í fyrradag að íslenskur almenningur greiddi gríðarlegan fórnarkostnað vegna krónunnar.

Ingimundur segir að seðlabankamenn telji ekki ástæðu til þess að hafa vantrú á krónunni sem framtíðargjaldmiðli. Krónan geti lifað um langa framtíð. Meginviðfangsefnið núna sé að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi og ef það takist og með skynsamlegri hagstjórn í kjölfarið eigi að geta ríkt stöðugleiki um krónuna. Hann minnir á að óstöðugleikinn og lækkun krónunnar stafi af þeirri þenslu sem hér hafi ríkt og þeim viðbrögðum í hagstjórninni sem nauðsynleg voru. Þegar menn nái almennilegum stöðugleika í hagkerfið að nýju þá geti haldist góður stöðugleiki í kringum krónuna og ekki ástæða til að örvænta yfir henni. Ingimundur varar við því að menn haldi að það séu til einhverjar auðveldar aðrar leiðir til að taka upp evruna. Ef hugur þjóðarinnar standi til þess að taka upp evruna þá sé skynsamlegast að ganga í Evrópusambandið, en ekki að leita einhverra annarra leiða sem menn halda að séu auðveldar og bjóði upp á einhverjar einfaldar lausnir á vanda sem menn þykjast sjá í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×