Innlent

Samkomulag um samstarf sjóhers og Landhelgisgæslu

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Sören Gade, varnarmálaráðherra Danmerkur, undirrituðu um borð í dönsku varðskipi í Reykjavíkurhöfn í morgun samkomulag um aukið samstarf Landhelgisgæslunnar og danska sjóhersins. Björn segir þetta pólitíska viljayfirlýsingu um að þróa samstarf þjóðanna í því skyni að efla öryggi borgaranna.

Søren Gade varnarmálaráðherra Danmerkur er staddur á Íslandi í boði Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra. Í morgun heimsótti danski ráðherrann höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar í Reykjavík en þar heiðraði hann þá starfsmenn Gæslunnar sem unnu að björgun sjómanna af danska varðskipinu Triton hinn 19. desember og fengu þeir orðu Margrétar Danadrottningar. Því næst lá leið ráðherranna um borð í Triton í Reykjavíkurhöfn en þar undirrituðu þeir samkomulag milli ráðuneyta sinna um aukið samstarf Landhelgisgæslunnar og dönsku strandgæslunnar.

Starfsmenn Gæslunnar, danska varðskipsins og Landsbjargar staðfestu svo samstarfið í verki með sameiginlegri björgunaræfingu í Reykjavíkurhöfn í morgun þar sem þyrlusveit Gæslunnar æfði sig í að taka eldsneyti á flugi frá danska varðskipinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×