Innlent

Dæmi um að fólk bíði í ár eftir að dánarorsök sé kunn

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða í tæpt ár eftir að fá dánarorsök látinna ástvina staðfesta en enginn réttarmeinarfræðingur er starfandi á landinu. Yfirlæknir reiknar með að ástandið vari í rúmt ár til viðbótar eða þar til réttarmeinarfræðingur tekur til starfa í byrjun þarnæsta árs.

Enginn réttarmeinafræðingur hefur verið starfandi á landinu svo árum skiptir. Ættingjar um fimmtíu einstaklinga bíða þess nú að fá niðurstöður um dánarorsök úr krufningu, þar á meðal er einn sem fréttablaðið ræðir við í dag en hann missti eiginkonu sína fyrir tíu mánuðum. Hann hefur ekki enn fengið að vita dánarorsökina og hvílir það þungt á honum. Bjarni G. Agnarsson, yfirlæknir á rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítalanum, segir erlendan réttameinafræðing koma til landsins reglulega og sinna þeim verkefnum sem til falla.

„En af því að hún er hér aðeins hluta af tímanum þá er minni tími aflögu til þess að vinna í raun pappírsvinnuna og klára skýrslurnar," segir Bjarni. „Við erum búin að ráða eða reikna með að fá til starfa annan réttarmeinafræðing sem mun væntanlega hefja störf hér í ársbyrjun 2014 þannig að þá held ég að þessi mál komist á rétt ról eftir þann tíma."

En á hverju strandar þetta, ekki fjármagnsskorti?

„Nei, það er í raun og veru bara skortur á réttarmeinafræðingum. Þetta er vandamál sem er í mörgum löndum, það hafa ekki nægilega margir farið í þessa grein og við höfum ekki haft Íslendinga á síðustu árum sem hafa farið í þetta. Þannig að það er í raun og veru vandamálið, það er skortur á sérfræðingum á þessu sviði. En veistu til þess að einhver Íslendingur sé í námi ákkúrat núna? Jú, það eru tveir Íslendingar sem hófu nám í réttarlæknisfræði í Svíþjóð síðastliðið haust en þetta er fimm ára nám þannig að ég get ekki reiknað með þeim fyrr en eftir þann tíma," segir Bjarni G. Agnarsson, yfirlæknir á rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítalanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×