Körfubolti

Sportið í dag: „Mis­gaman að vera fastur á Holta­vörðu­heiðinni klukkan eitt að nóttu en aldrei hugsað um að hætta“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rögnvaldur Hreiðarsson er einn reynslumesti dómari landsins.
Rögnvaldur Hreiðarsson er einn reynslumesti dómari landsins. vísir/bára

Rögnvaldur Hreiðarsson körfuboltadómari dæmdi á dögunum sinn 2000. leik. Rögnvaldur hefur verið einn farsælasti dómari landsins undanfarin ár en hann hefur dæmt á 25 körfuboltatímabilum í röð.

Rögnvaldur var á Skype í Sportinu í dag en Kjartan Atli Kjartansson ræddi þar við hárskerann og dómarann sem nú situr auðum höndum heima hjá sér hálfslappur.

„Það er góð spurning. Það þarf mikla þrautseigju og ástríðu. Ég elska körfubolta. Punktur. Ég held að það sé með flesta okkar sem eru fæddir í kringum 1968-1969 og svo er ég 1964 sem höfum verið samferða. Við elskum körfubolta,“ sagði Rögnvaldur.

„Ég held að það sé grunnurinn. Ef maður er ekki að dæma þá er maður að horfa á körfubolta. Körfubolti er lífið sjálft. Þetta er það sem maður hugsar um daginn út og daginn inn.“

Rögnvaldur var á sínu 25. tímabili er það var blásið af. Hann segir að hann hafi aldrei fengið leið á körfuboltanum.

„Maður er alltaf jafn til í þetta. Auðvitað er misgaman að vera fastur á Holtavörðuheiðinni klukkan eitt að nóttu eftir körfuboltaleik. Það gleður engan. Það hefur aldrei komið til sú hugsun að hætta þessu.“

Aðspurður hvort að áhorfendur séu rólegri nú en áður og láti dómaranna minna heyra það svaraði Rögnvaldur:

„Þetta er rosa góð spurning. Almennt trúi ég á það að áhorfendur láti okkur heyra það þegar við gerum vitleysur. Það er ólíklegt ef að 700 áhorfendur garga á þig og þú hafðir rétt fyrir þér og þeir rangt.“

„Ég trúi því að við höfum bætt okkur og erum miklu betri en við vorum. Þriggja dómara reglan breytti miklu í því. Almennt held ég að áhorfendurnir séu meðvitaðir um gæði dómgæslunnar. Ég held að við höfum bætt okkur rosa mikið.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í dag: Rögnvaldur búinn að dæma 2000 leiki

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.