Handbolti

Fær ekki að senda boltann en sendist með vörur til fólks í áhættuhópi

Sindri Sverrisson skrifar
Jesper Konradsson í landsleik með Svíum á HM 2017.
Jesper Konradsson í landsleik með Svíum á HM 2017. vísir/getty

Svíinn Jesper Konradsson hefur átt flestar stoðsendingar fyrir Skjern í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í vetur. Nú hefur hann tekið að sér að sendast með vörur til fólks.

Konradsson er liðsfélagi Björgvins Páls Gústavssonar og Elvars Arnar Jónssonar hjá Skjern. Óvíst er hvenær liðið leikur handbolta á nýjan leik og á meðan hefur Svíinn tekið að sér sendilstarf í sjálfboðavinnu. Starfið felst í því að aðstoða þá íbúa Skjern sem eru í sérstökum áhættuhópi vegna kóróveirunnar, með að fá vörur.

„Úr því að við getum ekki verið handboltamenn núna þá verðum við að gera eitthvað annað til að gera það besta úr þessari stöðu,“ sagði Konradsson við Dagbladet Ringköbing-Skjern. Leikmenn mega nefnilega ekki lengur svo mikið sem æfa saman á meðan að reynt er að hefta útbreiðslu veirunnar.

Á meðal þeirra sem Konradsson gæti aðstoðað eru tveir liðsfélagar hans í Skjern sem eru í heimasóttkví. Norðmaðurinn Bjarte Myrhol og Daninn Thomas Mogensen. Myrhol segist hafa verið veikur í tvo daga með einkenni kórónuveirunnar, eftir að hafa heimsótt leikmenn Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Segir hann að 5-6 leikmenn Löwen hafi smitast af kórónuveirunni. Myrhol átti hins vegar ekki í samskiptum við liðsfélaga sína í Skjern eftir Þýskalandsferðina og er Mogensen í heimasóttkví af öðrum ástæðum. Barn hans átti í samskiptum við barn sem reyndist smitað.


Tengdar fréttir

Guðmundur heim í sóttkví | „Ég er bara í sérherbergi“

„Ég er bara í sóttkví heima hjá mér, og uppi í sumarbústað. Það er samfélagsleg skylda mín og ég fylgi því,“ segir Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, sem kom heim til Íslands frá Þýskalandi á mánudaginn vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×