Handbolti

Óðinn með sex í sigri | Björgvin Páll sterkur gegn toppliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk í dag.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk í dag. Vísir/GOG

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 6 mörk úr 6 skotum fyrir GOG í 36-33 sigri gegn Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir GOG en þeir Árni Bragi Eyjólfsson og Ólafur Gústafsson voru ekki á meðal markaskorara Kolding.

Með sigrinum styrkti GOG stöðu sína í 2. sæti með 34 stig eftir 24 leiki, þremur stigum á undan Holstebro þegar tvær umferðir eru eftir. Holstebro á þó leik til góða. Kolding er í 12. sæti og á leið í fallumspil.

Aalborg hafði þegar tryggt sér sigur í deildinni en liðið gerði jafntefli við Skjern, 28-28. Björgvin Páll Gústavsson varði mark Skjern í seinni hálfleik og stóð sig afar vel en hann varði 7 af 18 skotum sem hann fékk á sig í leiknum, eða 39%. Elvar Örn Jónsson átti hins vegar ekki góðan dag og nýtti ekkert af sex skotum sínum. Hjá Aalborg var Ómar Ingi Magnússon með tvö mörk úr sjö skotum en Janus Daði Smárason komst ekki á blað.

Skjern er í 4. sæti með 28 stig, stigi á undan Bjerringbro-Silkeborg sem á leik til góða en þremur stigum á eftir næsta liði, Holstebro.

Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk en Sveinn Jóhannsson ekkert fyrir SönderjyskE í 30-22 sigri á Fredericia. SönderjyskE er með 22 stig í 9. sæti, tveimur stigum á eftir næstu liðum sem eiga leik eða leiki til góða. Liðið á því ekki mikla von um að komast í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×