Körfubolti

LeBron James og félagar fengu dýrustu meistarahringi sögunnar í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var ekki að sjá annað en að LeBron James væri sáttur með hringinn sem er hans fjórði meistarahringur á ferlinum.
Það var ekki að sjá annað en að LeBron James væri sáttur með hringinn sem er hans fjórði meistarahringur á ferlinum. Getty/Harry How

NBA meistarar hafa aldrei fengið eins dýra meistarahringa og leikmenn Los Angeles Lakers fengu afhenta fyrir fyrsta leikinn sinn á nýju tímabili.

Los Angeles Lakers afhenti í gær leikmönnum sínum meistarahringina fyrir sigurinn í NBA deildinni á síðustu leiktíð. Athöfnin fór fram fyrir leik á móti nágrönnunum í Los Angeles Clippers sem svo tapaðist eftir skelfilegan fyrsta leikhluta.

Forráðamenn Los Angeles Lakers ákváðu að hengja ekki upp meistarafánann að þessu sinni þar sem engir áhorfendur máttu vera í Staples Center í nótt. Það mun því bíða betri tíma.

Leikmenn Lakers liðsins fengu aftur á móti hringana með viðhöfn en þeir fengu allir fjarkveðjur frá fjölskyldu sinni þegar þeir voru kallaðir fram.

Meistarahringarnir í ár eru hinir glæsilegustu enda leggja liðin mikið í þá

Hver steinn er með 0.95 karöt af fjólubláa skrautsteinum ameþyst sem táknar þá 95 daga sem leikmenn Lakers liðsins eyddu í NBA búbblunni í Disneygarðinum.

Það eru einnig 0,52 karöt af demöntum sem tákna sigrana 52 sem Lakers vann í deildarkeppninni.

Á hverjum hring eru sautján bikarar sem tákna það að Lakers hefur nú jafnað met Boston Celtics liðsins yfir flesta NBA titla í sögunni.

Það er líka mamba slanga fyrir aftan númer leikmanna sem er til heiðurs Kobe Bryant sem lést í þyrluslysi 26. janúar ásamt þrettán ára dóttur sinni Gigi og sjö öðrum. Kobe vann fimm meistaratitla með Lakers og er af mörgum talinn vera besti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Hver hringur er 16,45 karöt en þetta er dýrasti meistarahringur sem gerður hefur verið.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á síðustu fjórum meistarahringum Los Angels Lakers eða frá 2002, 2009, 2010 og 2020.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×