Handbolti

Þjálfari HK: Ef við fáum ekki að æfa fyrr en þá er hætt við að mótið sé ó­nýtt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kvennalið HK má hefja æfingar en ekki karlalið félagsins.
Kvennalið HK má hefja æfingar en ekki karlalið félagsins. Vísir/Vilhelm

Þjálfarar HK í handbolta, karla og kvenna megin, hafa töluverðar áhyggjur af ástandinu sem stendur. Ef karlaliðið fær ekki að hefja æfingar fyrr en 12. janúar hefur liðið ekki æft í fjóra mánuði og kvenna megin eru hátt í þrjátíu stelpur á aldrinum sextán til tuttugu ára sem geta ekkert æft.

Eftir nýjustu útfærslu heilbrigðisyfirvalda varðandi hvaða lið mega æfa íþróttir og hver ekki þá er HK í þeirri áhugaverðu stöðu að handboltalið HK, kvenna megin, getur æft á meðan karlarnir mega það ekki.

Þetta á einnig við um önnur lið landsins þar sem dæminu gæti verið snúið við. Til að mynda á Akranesi þar sem leikmenn karlaliðs ÍA í knattspyrnu geta farið á æfingar en ekki kvennalið félagsins.

Rætt var við Halldór Harra Kristjánsson, þjálfara meistaraflokks kvenna hjá HK, og Elías Már Halldórsson, þjálfara meistaraflokks karla hjá HK í Kórnum í dag. Sjá má viðtalið við þá í spilaranum neðst í fréttinni.

„Ég held að stelpurnar geti ekki beðið eftir að mæta á æfingu á morgun, og ég sjálfur bara. Þetta verður frábært,“ sagði Halldór Harri aðspurður hvort það væri ekki spenna í mannskapnum fyrir fyrstu æfingunni í langan tíma.

„Það voru pínu vonbrigði þegar maður sá þessar reglur koma út í gær, að það ætti að leyfa sumum að fara á fullt en halda öðrum frá æfingum til 12. janúar. Það voru vonbrigði en við erum að vona að við fáum þessa undanþágu sem þeir eru búnir að opna á og að við getum farið að æfa líka,“ sagði Elías Már um þessa skrítnu stöðu sem HK er í.

„Þegar þeir hafa verið að breyta þessum reglum hafa þær gilt í 2-3 vikur en nú ákváðu þeir að vera með þessar reglur til 12. janúar. Ef við lendum í að fá ekki að æfa fyrr en þá er hætt við að mótið sé ónýtt. Þá erum við komnir í fjögurra mánaða stopp, þurfum líklega fimm til sex vikur til að koma okkur í gang og þá erum við að renna inn í mars mánuð og yfirleitt er deildarkeppnin að klárast í apríl byrjun. Við erum því komin alveg á tæpasta vað með tímann til að klára mótið,“ bætti Elías Már við.

„Maður hefur áhyggjur af sextán til tuttugu ára aldrinum sem fær ekki að æfa. Allir yngri flokkar fá að æfa og meistaraflokkurinn hjá mér en það eru tuttugu til þrjátíu stelpur hjá mér sem komast ekki á neinar æfingar,“ sagði Halldór Harri um helstu áhyggjur sínar af kvenna flokkum HK.

Klippa: Ef við fáum ekki að æfa fyrr en þá er hætt við að mótið sé ónýtt

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Fram­kvæmda­stjóri HSÍ: Veru­­legt á­hyggju­efni

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir að mörgum spurningum sé enn ósvarað hvað varðar æfingar liða á Íslandi eftir nýjustu sóttvarnareglur sem tilkynnt var um í dag. Þær gilda frá 10. desember til 12. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×