Körfubolti

Formaður KKÍ vonsvikinn og reiður með tíðindi dagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes S. Jónsson afhendir Hlyni Bæringssyni, fyrirliða Stjörnunnar, deildarmeistarabikarinn á síðasta ári.
Hannes S. Jónsson afhendir Hlyni Bæringssyni, fyrirliða Stjörnunnar, deildarmeistarabikarinn á síðasta ári. vísir/bára

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, var ekkert sérstaklega ánægður með tíðindin sem bárust um hádegið, að gildandi samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins verði áfram við lýði til 9. desember. Það þýðir að íslenskt íþróttafólk, fullorðnir og ungmenni, mega ekki æfa eða keppa eins og undanfarna tvo mánuði.

„Þetta eru hrein og klár vonbrigði. Ég geri mér alveg grein fyrir að við eigum í þessari baráttu við veiruna eins og nánast allt þetta ár. Við í íþróttahreyfingunni höfum svo sannarlega unnið mjög vel með heilbrigðisyfirvöldum og öllum þeim sem að þessu koma,“ sagði Hannes í samtali við Vísi í dag.

„En það er alveg ljóst að við verðum að fá að æfa. Við höfum rætt þetta í nokkrar vikur. Og þrátt fyrir allt, og smá aukningu í smitum sem að sjálfsögðu alvarlegt, getum við og treystum okkur til að geta mætt í íþróttahúsin og æft undir ströngum sóttvarnareglum sem við höfum búið til. Þetta eru mikil vonbrigði og maður er pínu reiður og svekktur að afreksfólkið og krakkarnir okkar fái ekki að æfa.“

Eru tilbúin að leggja enn meira á sig til að fá að æfa

Hannes segir að hljóðið í körfuboltahreyfingunni sé ekki gott og hafi ekki batnað eftir tíðindi dagsins.

„Hljóðið er þungt. Það vita allir hvernig fór á síðasta tímabili þegar við þurftum að slaufa því. Núna erum við með tímabil númer tvö sem hefur varla farið af stað. Það eru lið sem hafa varla spilað. Hljóðið í okkur er þungt. Við erum svekkt og nú þurfum við að setjast yfir þetta. Að sjálfsögðu langar okkur að spila eins fljótt og við getum en númer eitt þurfa leikmennirnir og liðin okkar að fá að æfa. Við þurfum að fá að æfa og þá getum við byrjað að keppa,“ sagði Hannes.

„Allir í kringum körfuboltann eru tilbúnir að leggja enn meira á sig til að fá fáum að æfa. Þau hafa lagt mikið á sig undanfarnar vikur og mánuði og staðið sig þrusu vel í sóttvörnum. Þau eru til í þetta áfram.“

Klippa: Formaður KKÍ vonsvikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×