Eftir leikinn birti Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, mynd úr búningsklefa íslenska liðsins.
Klefinn var í minnsta lagi og hefði verið það fyrir meðalmenn á hæð, hvað þá körfuboltamenn um og yfir tvo metra á hæð. En þröngt mega sáttir sitja og þrátt fyrir að vera í klefa á stærð við kústaskáp virtist liggja ágætlega á íslensku leikmönnunum.
Hálfnað verk þá hafið er....einn sigur í hús og þurfum að sækja annan á laugardaginn við Kosovo...þakklátur fyrir þau forréttindi að fá að fylgja landsliðinum okkar #korfubolti pic.twitter.com/jCKw0FdHnA
— Hannes S.Jónsson (@hannes_jonsson) November 26, 2020
Hannes sagði einnig að klefinn sem íslenska liðinu væri úthlutað stæðist klárlega ekki reglur FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandsins.
Enda var mikið hlegið að þessari litlu kitru...klárlega ekki samkvæmt þessum blessuðu FIBA reglum....ég hef bara aldrei séð annað eins #korfubolti https://t.co/H7MpVSTpHB
— Hannes S.Jónsson (@hannes_jonsson) November 27, 2020
Ísland var fjórum stigum undir í hálfleik í leiknum í gær, 34-38, en vann seinni hálfleikinn, 56-38, og leikinn með fjórtán stiga mun, 90-76.
Íslendingar eru með fimm stig í 2. sæti B-riðils. Þeir mæta Kósóvóum í seinni leik sínum í Slóvakíu klukkan 15:00 á morgun.
Ísland mætir svo Slóvakíu og Lúxemborg í síðustu tveimur leikjum sínum í forkeppninni í febrúar á næsta ári. Efstu tvö liðin í riðlinum komast áfram á næsta stig undankeppninnar.