Körfubolti

Fengu íslensku strákarnir minnsta búningsklefann í Slóvakíu?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir í kústaskápnum í keppnishöllinni í Bratislava.
Íslensku strákarnir í kústaskápnum í keppnishöllinni í Bratislava. twitter-síða hannesar s. jónssonar

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta sigraði Lúxemborg, 90-76, í forkeppni heimsmeistaramótsins í körfubolta í gær. Leikið var í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu.

Eftir leikinn birti Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, mynd úr búningsklefa íslenska liðsins.

Klefinn var í minnsta lagi og hefði verið það fyrir meðalmenn á hæð, hvað þá körfuboltamenn um og yfir tvo metra á hæð. En þröngt mega sáttir sitja og þrátt fyrir að vera í klefa á stærð við kústaskáp virtist liggja ágætlega á íslensku leikmönnunum.

Hannes sagði einnig að klefinn sem íslenska liðinu væri úthlutað stæðist klárlega ekki reglur FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandsins.

Ísland var fjórum stigum undir í hálfleik í leiknum í gær, 34-38, en vann seinni hálfleikinn, 56-38, og leikinn með fjórtán stiga mun, 90-76.

Íslendingar eru með fimm stig í 2. sæti B-riðils. Þeir mæta Kósóvóum í seinni leik sínum í Slóvakíu klukkan 15:00 á morgun.

Ísland mætir svo Slóvakíu og Lúxemborg í síðustu tveimur leikjum sínum í forkeppninni í febrúar á næsta ári. Efstu tvö liðin í riðlinum komast áfram á næsta stig undankeppninnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×