Körfubolti

Jón Axel verður í NBA-nýliðavalinu á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson háskólaliðinu.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson háskólaliðinu. Getty/Lee Coleman

Körfuknattleikssamband Íslands segir frá því að einn íslenskur körfuboltamaður muni taka þátt í nýliðavali NBA deildarinnar í ár en það er landsliðsmaðurinn og Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson, sem leikið hefur með Davidson háskólanum undanfarin tímabil.

Jón Axel gekk til liðs við þýska liðið Fraport Skyliners sem atvinnumaður fyrir þetta tímabil en nýliðavalið átti að fara fram í sumar en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Nýliðavalinu verður sjónvarpað frá höfuðstöðvum ESPN á netinu en ekki með viðhöfn líkt og venjulega en athöfnin átti að fara fram í Bacley Center í Brooklyn.

Ljóst er að nýliðavalið er um margt sérstakt í ár þar sem valin sjálfu var fyrst frestað, bæði út af heimsfaraldrinum sem og að lokatímabilið í háskólaboltanum, og þar með lokaárinu hjá Jóni Axel, var flautað af síðastliðinn vetur út af faraldrinum.

KKÍ fjallar um möguleika Jóns Axels í fréttinni á heimasíðu sinni og þar segir að sambandið viti af talsverðum áhuga nokkurra liða sem eiga valrétt í seinni umferðinni. KKÍ nefnir liðin þrjú sem gætu tekið Jón Axel og þau eru eftirtalin:

  • 32. valréttur - Charlotte Hornets
  • 35. valréttur - Sacramento Kings
  • 48. valréttur - Golden State Warriors

Það er vissulega mikið afrek að vera valinn í nýliðavalinu og fá samning hjá NBA liði.

Pétur Guðmundsson er eini Íslendingurinn sem leikið hefur í deildinni. Hann var valinn, sem þá var þriðja umferð, af Portland Trail Blazers árið 1981 og lék í deildinni til 1989 með Portland, San Antonio og Lakers.

Jón Arnór Stefánsson var síðan á samning hjá Dallas Mavericks 2003-2004 en lék ekki í deildinni á meðan hann var í þeirra herbúðum.

Tryggvi Snær Hlinason fór í nýliðavalið að auki árið 2018 en var ekki valinn.

Næsta körfuboltaverkefni Jóns Axels verður svo landsliðsglugginn sem fram fer í FIBA „búbblu“ í Slóvakíu með karlalandsliðinu sem stendur yfir dagana 23. til 29. nóvember. Þá verða tveir landsleikir á dagskránni gegn Lúxemborg og Kosovó í undankeppni HM 2023.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.