Körfubolti

Sara Rún aðeins sú þriðja sem skorar þrjátíu stig í leik fyrir A-landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára

Sara Rún Hinriksdóttir komst í fámennan hóp með frammistöðu sinni á móti Búlgaríu í undankeppni EM kvenna í körfubolta um helgina.

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 31 stig í 21 stigs tapi íslenska kvennalandsliðsins á móti því búlgarska í FIBA búbblunni í Heraklion á Krít.

Aðeins tvær aðrar íslenskar körfuboltakonur hafa náð því að skora 30 stig í einum leik fyrir íslenska A-landsliðið. Það eru Anna María Sveinsdóttir, sem gerði það fyrst, og Helena Sverrisdóttir sem hefur gerst það oftast.

Anna María Sveinsdóttir á enn stigametið en það setti hún á Möltu í Promotion Cup í júní 1996. Anna María skoraði þá 35 stig í sigri á heimastúlkum.

Helena Sverrisdóttir hefur skorað 34 stig í tveimur landsleikjum og 33 stig í einum leik en hefur ekki tekist að taka metið af Önnu Maríu.

Frammistaða Söru Rúnar tryggði henni líka sæti í fimm manna úrvalsliði FIBA Europe úr fjórðu umferð undankeppninnar eins og sjá má hér fyrir neðan.

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 54 stig í leikjunum tveimur á Krít eða 27 stig að meðaltali í leik. Hún hafði skorað 138 stig í fyrstu 19 A-landsleikjum sínum eða 7,2 stig að meðaltali í leik.

Sara Rún missti af mörgum A-landsleikjum vegna þess að hún stundaði nám í Canisius háskólanum í Bandaríkjunum í fjögur ár frá 2015 til 2018. Sara spilar núna með enska liðinu Leicester Riders.

Sara Rún var allt í öllu í sóknarleik íslenska liðsins í leikjunum tveimur á Krót en hún þurfti að taka 45 skot til að skora þessu 54 stig. Sara var einnig með 15 fráköst og 6 stoðsendingar í þessum tveimur leikjum.

Sara skoraði meira en helming stiga íslenska liðsins á móti Búlgaríu eða 31 af 53 en það gera 58 prósent stiganna. Hún var með 40 prósent stiganna í fyrri leiknum á móti Slóveníu eða 23 af 58.

Næststigahæsti leikmaður íslenska liðsins í leikjunum tveimur var Þóra Kristín Jónsdóttir með 18 stig eða 36 stigum færra en Sara. Sara Rún var með 54 stig í leikjunum tveimur en restin af íslenska liðinu skoraði samanlagt 57 stig.

30 stiga leikmenn A-landsliðs kvenna í körfubolta:

  • 5 sinnum - Helena Sverrisdóttir (2007, 2008, 2014, 2018, 2019)
  • 2 sinnum - Anna María Sveinsdóttir (1989 og 1996)
  • 1 sinni - Sara Rún Hinriksdóttir (2020)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.