Körfubolti

Golden State Warriors ætlar prófa alla áhorfendur og fylla 50 prósent sætanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry verður vonandi heill á næsta tímabili en hann lék aðeins 5 af 65 leikjum Golden State Warriors á því siðasta.
Stephen Curry verður vonandi heill á næsta tímabili en hann lék aðeins 5 af 65 leikjum Golden State Warriors á því siðasta. Getty/Jane Tyska

Það verða áhorfendur á heimaleikjum Golden State Warriors þegar NBA tímabilið hefst á nýjan leik. Eigandinn er tilbúinn að eyða milljörðum í smitpróf.

Sérfræðingar og aðrir eiga eftir að deila um það hvort það sé raunhæft að ná metnarfullum markmiðum eiganda Golden State Warriors á 2020-21 NBA-tímabilinu.

Það eru samt margir spenntir fyrir því að sjá Golden State Warriors liðið í NBA-deildinni í körfubolta þegar tímabilið fer aftur af stað rétt fyrir jól.

Golden State Warriors átti mjög erfitt síðasta tímabil þar sem liðið lék án stjörnuleikmanna sinna Klay Thompson og Stephen Curry. Klay missti af öllu tímabilinu og Steph lék aðeins fimm leiki. Warriors liðið vann aðeins 15 af 65 leikjum sínum eða 23 prósent og endðai í fimmta og síðasta sæti í Vesturdeildinni.

Þetta var fyrsta tímablið hjá liðinu í glænýju Chase Center í miðbæ San Francisco en liðið flutti þangað frá Oakland fyrir síðasta tímabil.

Forráðmenn Golden State Warriors hafa nú sett fram metnaðarfull plön um að vera með áhorfendur á heimaleikjum sínum þrátt fyrir kórónuveiruna. Stefnan er að fylla fimmtíu prósent af mögulegum sætum í höllinni.

Joe Lacob sagði í viðtali við ESPN að Golden State Warriors ætli að eyða allt að 30 milljónum dollara, meira en fjórum milljörðum íslenskra króna, í að prófa hvern einasta áhorfanda á heimaleikjum liðsins.

Eigandinn Joe Lacob trúir því að félagið gæti sýnt öðrum hvernig er hægt að gera hlutina í núverandi ástandi. „Ég vil ekki bara ná að gera þetta heldur vil ég líka sýna heiminum hvernig þetta er hægt. Ég er líka tilbúinn að eyða peningum í það,“ sagði Joe Lacob við ESPN.

Joe Lacob ætti að þekkja vel til möguleikanna í boði því hann er með Masterspróf í lýðheilsu.

„Það er ekki hægt að viðhalda þessari deild án áhorfenda. Það er hægt í eitt ár en við verðum áfram í þessari stöðu á næsta ári þá erum við að tala um verulegt fjárhagstjón fyrir fullt af fólki,“ sagði Lacob.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.