Skoðun

Desem­ber­upp­bót en ekki bið­raðir

Drífa Snædal skrifar

Við vitum öll að sú kreppa sem nú gengur yfir kemur afar misjafnt niður á fólki eftir aldri, atvinnugreinum og búsetu. Ósk eftir aðstoð frá hjálparsamtökum hefur aukist til muna og sama má segja um beiðnir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Við hljótum að vera sammála um að draga úr neyðinni og það sé smánarblettur að fólk þurfi að leita á náðir hjálparsamtaka til að geta haldið jól. Það minnsta sem hægt er að gera einmitt núna er að tryggja atvinnuleitendum desemberuppbót sambærilega þeirri sem er að finna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þ.e. 94.000 krónur. Það er uppbótin sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um sem viðmið og það er eðlileg krafa að atvinnuleitendur fái slíka uppbót. Að sama skapi skal tryggja uppbót fyrir öryrkja sem kemur þeim ekki í koll í harkalegum skerðingum þannig að desemberuppbótin verði skatta- og skerðingalaus. Gerum allavega þetta rétt og drögum úr neyðinni!

Í vikunni birti OECD ótrúlega skýrslu um samkeppnismat á Íslandi. Það er eins og dustað hafi verið rykið af skýrslu frá síðustu aldamótum og úreltar kreddur um að draga úr eftirliti séu í sjálfu sér góðar óháð innihaldinu. Við verðum að hafa í huga að reglur um mannvirki eins og aðrar reglur eru til að vernda heilsu og velferð fólks. Það verður að vera í forgrunni við allar ákvarðanir að við séum ekki að slaka á kröfum um velferð. Sama má segja um tillögurnar um að draga úr löggjöf um löggiltar starfsgreinar – slíkar reglur eru settar til að tryggja fagmennsku og gæði umfram allt annað og við eigum að hafa þann metnað áfram. Að „draga úr samkeppnishindrunum“ í leigubifreiðaakstri er til að mynda glórulaus tillaga um að sleppa hark-hagkerfinu lausu og verður til þess eins að draga úr öryggi farþega og lækka tekjur þeirra sem hafa lífsviðurværi sitt af leigubifreiðaakstri. Gerum ekki sömu mistök og aðrar þjóðir í þeim efnum! Endurreisum atvinnulífið á tryggum ráðningarsamböndum, fagmennsku og öryggi!

Góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Ungfrú Ísland

Hanna Katrín Friðriksson,Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.