Skoðun

Taumlaus græðgi

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar

Nú eru háværar raddir innan bankakerfisins að vextir á íbúðalánum verði að hækka. Nú þegar hefur Íslandsbanki hækkað vexti.

En er nauðsynlegt að hækka vexti?

Við nánari skoðun og samanburð á þróun vaxtaálags bankanna, í samanburði við fjármögnunarkostnað, sést að svo er alls ekki.

Hvert fór lækkun bankaskattsins?

Bankarnir hafa í raun margfaldað álagningu sína síðustu ár. Svo mikið að það nemur mörg hundruð prósentum. Þrátt fyrir lækkun bankaskatts hafa lægri vextir og lægri fjármögnunarkostnaður bankanna að mestu farið í vasa þeirra sjálfra.

Það má því álykta sem svo bankarnir hafa tekið til sín mesta ávinning vaxtalækkana síðustu ára.

Einnig má spyrja um samfélagslega ábyrgð og eigendastefnu stjórnvalda.

Hvernig má það vera í árferði sem nú er þar sem óvissa er mikil, og tekjufall einstaklinga og fyrirtækja án fordæma, að bankarnir fari fram með þessum hætti? Þarf græðgin og hagnaðardrifin eigendastefna alltaf að vera í forgrunni? Alveg sama hvernig árar í samfélaginu?

Væri til of mikils ætlast að bankarnir og eigendur þeirra (Ríkið) gæfu þau fyrirmæli að vegna stöðunnar, sem hjá mörgum er skelfileg, sé nauðsynlegt að ýta til hliðar arðsemissjónarmiðum og dusta rykið af samfélagslegu ábyrgðinni og taka þannig þátt í að hlífa viðskiptavinum sínum og samfélaginu við hugmyndafræði sem drepur mögulega viðspyrnu þegar birta fer til hagkerfinu?

Væri það heimsendir fyrir fjármálakerfið að vera rekið á núlli, eða tapi, í eitt til tvö ár á meðan varnarbáráttan og viðspyrnan á sér stað?

Hér má sjá hvernig bankarnir hafa skilað ávinningi samfélagsins af vaxtalækkunum til neytenda. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig álagning bankanna hefur aukist um mörg hundruð prósent á tveimur íbúðalánaflokkum.

Hér er samanburður húsnæðisvaxta þriggja stóru íslensku bankanna og þeir settir í samhengi við fjármögnunarkostnað. Með því má fá mat á vaxtaálagi bankanna. Fyrir verðtryggð fasteignalán er stuðst við ávöxtunarkröfu á sértryggðum skuldabréfum bankanna. Fyrir óverðtryggð lán er stuðst við bæði sértryggð skuldabréf en einnig þriggja mánaða REIBOR vexti.

Höfundur er formaður VR.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.