Handbolti

Annar sigur Börsunga á innan við sólarhring

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í Barcelona léku sinn annan leik á innan við sólahring í kvöld.
Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í Barcelona léku sinn annan leik á innan við sólahring í kvöld. Javier Borrego/Getty Images

Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í handknattleiksliði Barcelona mættu Benidorm í spænsku úrvalsdeildinni í dag, þeirra annar leikur á innan við 24 tímum.

Í gærkvöld spilaði Barcelona við Álaborg í Meistaradeild Evrópu og vann öruggan níu marka sigur, 42-33. Þar fór Aron Pálmarsson á kostum, skoraði fimm mörk og lagði upp önnur fimm.

Leik dagsins í dag var upphaflega frestað vegna þess að leikmaður Barcelona greindist með kórónuveiruna. Því var leikurinn settur á svo stuttu eftir leik liðsins í Meistaradeildinni.

Það kom hins vegar ekki að sök þar sem Börsungar unnu enn einn stórsigurinn í kvöld. Fór það svo að liðið vann 14 marka sigur, 43-29.

Aron tók því rólega í leik kvöldsins, skoraði hann eitt mark.

Barcelona er þar af leiðandi með 16 stig eða fullt hús stiga eftir átta umferðir í spænsku úrvalsdeildarinnar. Eru þeir með fjögurra stiga forskot á Bidasoa, Granollers og Valladolid.

Valladolid hefur líkt og Barcelona unnið alla sína leiki en þeir hafa aðeins leikið sex leiki sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×