Sport

Bara ein kona í nýjum Ólympíuhópi FRÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi fimm skipa nýjan Ólympíuhóp Frjálsíþróttsambands Íslands fyrir ÓL 2020 (21). Þau eru Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Guðni Valur Guðnason, Hilmar Örn Jónsson, Hlynur Andrésson og Sindri Hrafn Guðmundsson.
Þessi fimm skipa nýjan Ólympíuhóp Frjálsíþróttsambands Íslands fyrir ÓL 2020 (21). Þau eru Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Guðni Valur Guðnason, Hilmar Örn Jónsson, Hlynur Andrésson og Sindri Hrafn Guðmundsson. FRÍ

Ísland mun vonandi eiga fulltrúa í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó næsta sumar en það á enn eftir að koma í ljós hvort einhver íslenskur keppandi nær lágmörkum á leikana.

Það sést á nýjum sérstökum Ólympíuhópi FRÍ að íslenskar frjálsíþróttakonur standa ekki jafnvel og karlarnir í baráttunni um sæti á 32. Ólympíuleikum sögunnar.

Aðeins ein kona kemst í Ólympíuhóp Frjálsíþróttasambands Íslands að þessu sinni en það er spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR. Hinir fjórir meðlimirnir eru karlmenn.

Eins og staðan er í dag þá hefur enginn íslenskur frjálsíþróttamaður tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum en í hópnum eru þeir sem að stefna að þátttöku, vinna markvisst að því að tryggja sér keppnisrétt á leikana og þau sem FRÍ telur að eigi möguleika á þátttöku.

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir hefði alltaf bætt stöðu kvenna í hópnum en hún ákvað að hætta keppni í haust. Ásdís ætlaði að enda feril sinn á þátttöku á Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar en missti af þeim möguleika þegar leikunum var frestað um eitt ár.

Frjálsíþróttasamband Íslands tekur það fram að ekki sé um endanlegan hóp frá FRÍ að ræða og að sambandið vonist til þess að það fjölgi í hópnum á árinu 2021. Frestur til að ná lágmörkum er til 29. júní 2021.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar varð til þess að það var lokað á möguleika til að ná lágmörkum í frjálsíþróttum frá 6. apríl síðastliðnum en glugginn opnar aftur 30. nóvember 2020 næstkomandi.

Lágmörkin eru erfiðari en áður og aðeins er gert ráð fyrir því að um helmingur keppenda öðlist keppnisrétt með lágmörkum. Þeir sem ekki ná lágmörkum verða valdir út frá stöðu á heimslista.

Ólympíuhópur FRÍ

  • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – ÍR – 200 metra hlaup
  • Guðni Valur Guðnason – ÍR – Kringlukast
  • Hilmar Örn Jónsson – FH – Sleggjukast
  • Hlynur Andrésson – ÍR – Maraþon/3000 metra hindrunarhlaup
  • Sindri Hrafn Guðmundsson – FH – Spjótkast

Myndaður hefur verið Ólympíuhópur Frjálsíþróttasambands Íslands og í honum eru fimm keppendur. ...

Posted by FRÍ - Frjálsíþróttasamband Íslands on Miðvikudagur, 28. október 2020Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.