Handbolti

Óvissa um fyrstu Evrópuleiki KA/Þórs

Sindri Sverrisson skrifar
KA/Þór náði góðum árangri á síðustu leiktíð og vann sér inn sæti í Evrópukeppni sem óvíst er að liðið nái að nýta.
KA/Þór náði góðum árangri á síðustu leiktíð og vann sér inn sæti í Evrópukeppni sem óvíst er að liðið nái að nýta. vísir/bára

KA/Þór gæti leikið sína fyrstu Evrópuleiki frá upphafi í nóvember þegar liðið á að mæta ítalska liðinu Jomi Salerno. Kórónuveirufaraldurinn flækir þó málið.

KA/Þór komst í úrslitaleik Coca Cola bikars kvenna í handbolta á síðustu leiktíð og það skilaði liðinu á endanum sæti í 3. umferð Evópubikarkeppni EHF. Í dag drógust Akureyringar svo gegn Jomi Salerno og á fyrri leikurinn að fara fram á Ítalíu 14. eða 15. nóvember, og sá seinni viku síðar á Akureyri.

Siguróli M. Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA, segir KA nú þegar hafa sóst eftir því að báðir leikirnir fari fram á Akureyri. Erfitt sé að sjá fyrir sér að einvígið farið á annað borð fram náist ekki samkomulag um að báðir leikirnir verði á sama stað, í ljósi þess hve flókið og erfitt sé að ferðast á þessum tímum.

Mættu ekki fljúga til Akureyrar

Ef Ítalarnir fallast á tilboðið um að spila báða leiki á Akureyri þyrfti leyfi stjórnvalda til að þeir færu í svokallaða vinnusóttkví, eins og erlend knattspyrnulið hafa gert við komuna til landsins. Þeir mættu þá að sögn Siguróla ekki fljúga til Akureyrar heldur þyrftu að leigja rútu og aka norður eftir komuna til Keflavíkur, og halda sig annars í sóttkví á hóteli nema á æfingum og í leikjunum.

Að sama skapi yrði ferðalagið flókið fyrir Akureyringa ef ákveðið yrði að leikirnir færu báðir fram á Ítalíu. Þá er ljóst að leikmenn þyrftu að fara í sóttkví við komuna aftur til Íslands. Fundað verður um málið í kvöld og samráð haft við leikmenn um hvort þeir hafi yfirhöfuð áhuga á að fara til Ítalíu til að spila fyrstu Evrópuleiki KA/Þórs á þessum óvissutímum.

Áður hafa kvennalið Vals og karlalið Vals og Aftureldingar dregið sig úr Evrópukeppnum í haust vegna faraldursins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.