Skoðun

Ís­land er land þitt

Hjörtur Hjartarson skrifar

Landið er fagurt og frítt og fólkið líka. Um allt land er dugandi fólk að vinna allskyns þjóðþrifaverk auk þess að sjá sér og sínum farborða. Horfið bara á Landann í Sjónvarpinu. Í stjórnmálum landsins er hins vegar uppi ógnvænleg staða. Í fyrsta skipti í sögu landsins býst Alþingi til þess að hafa að engu úrslit lýðræðislegra kosninga og hefur í átta ár reynt fyrir sér. Til samanburðar getum við litið til vinaþjóðar okkar Breta, rótgróins lýðræðisríkis.

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, fór fram 23. júní 2016. Niðurstaðan var að 52% greiddu atkvæði með útgöngu. Tæpum níu mánuðum síðar hafði breska þingið afgreitt málið og staðfest vilja kjósenda. Engu beytti þótt þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit væri ráðgefandi. Engu breytti þótt meiri hluti þingsins væri á móti útgöngunni. Aldrei kom til greina annað en að þingið virti úrslit atkvæðagreiðslunnar sem það boðaði til.

Ekkert þjóðþing í lýðræðisríki kallar kjósendur til atkvæðagreiðslu um grundvallarmál og hunsar síðan niðurstöðuna.

Þegar Alþingi býst til að hafa að engu úrslit lýðræðislegra kosninga þurfa almennir borgarar í landinu að bregðast við. Og það hafa þeir gert og það var þeim líkt. Á fimmta tug þúsunda hafa undirritað yfirlýsingu þar sem þess er krafist að Alþingi virði úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá sem fram fór 20. október 2012. – ATH! Undirskriftasöfnuninni lýkur á miðnætti í kvöld.

Nú, þegar þögnin er rofin um nýju stjórnarskrána, hefur fólk eðlilega skoðanir á einstökum greinum hennar. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum ekki á byrjunarreit í stjórnarskrárferlinu heldur á lokasprettinum. Langt lýðræðislegt ferli er að baki og kjósendur hafa kveðið upp sinn dóm, samþykkt að ákveðnar tillögur skuli verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland.

Aðeins ein grundvallarspurning stendur eftir í stjórnarskrármálinu og hún er þessi: Eru úrslit lýðræðislegra kosninga virt á Íslandi eða ekki? Við hljótum líka að spyrja: Er þjóðin fullvalda eða eru einhver önnur öfl í samfélaginu sem ráða för? Hverjir eiga Ísland? Eru stjórnarhættir í uppsiglingu sem við viljum ekki?

Ísland er land þitt og mitt. Látum ekki kæfa draum landsmanna um betra og sanngjarnara samfélag á heilbrigðum grunni. Skrifum undir á www.nystjornarskra.is.

Höfundur er stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×