Handbolti

Sigvaldi átti góðan leik í sigri Kielce

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigvaldi Björn átti góðan leik fyrir Kielce í kvöld.
Sigvaldi Björn átti góðan leik fyrir Kielce í kvöld. HSÍ

Sigvaldi Björn Guðjónsson átti góðan leik í liði Vive Kielce er liðið lagði Meshkov Brest í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Þá vann Álaborg frábæran útisigur á Nantes.

Sigvaldi Björn var meðal markahæstu manna í liði Vive Kielce í kvöld er liðið lagði Meshkov Brest af velli með sjö marka mun, 34-27. Sigvaldi var einkar drjúgur í upphafi leiks, skoraði hann fyrsta mark Kielce í kvöld og alls þrjú af fyrstu tíu mörkum liðsins. Hann endaði með fjögur mörk.

Sigurinn var aldrei í hættu en Kielce leiddi með sjö mörkum í hálfleik, 18-11 og hleypti gestunum aldrei almennilega inn í leikinn.

Kielce er sem fyrr í 2. sæti A-riðils Meistaradeildar Evrópu með sex stig að loknum fjórum leikjum. Fyrir leik kvöldsins voru Kielce og Meshkov Brest jöfn að stigum. Flensburg er sem fyrr á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Í B-riðli heldur frábært gengi Álaborgar áfram en liðið er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir umferðir eftir öruggan sigur á Nantes frá Frakklandi í kvöld. Lokatölur 32-24 og sigurinn í raun aldrei í hættu. Gestirnir frá Frakklandi skoruðu aðeins níu mörk í fyrri hálfleik, staðan 16-9 þegar flautað var til hálfleiks.

Yfirburðir Álaborgar héldu áfram í síðari hálfleik og vann liðið á endanum öruggan átta marka sigur, 32-24. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×