Körfubolti

Tryggvi búinn að troða oftast af öllum leikmönnum spænsku deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason er búinn að troða boltanum tólf sinnum í körfu mótherjanna í fyrstu fimm leikjunum.
Tryggvi Snær Hlinason er búinn að troða boltanum tólf sinnum í körfu mótherjanna í fyrstu fimm leikjunum. Getty/Oscar J. Barroso

Tryggvi Snær Hlinason tróð boltanum þrisvar sinnum í körfuna í leik Casademont Zaragoza í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta og kom sér fyrir í efsta sæti troðslulistans.

Tryggvi Snær hefur alls troðið boltanum tólf sinnum í körfuna í fyrstu fimm leikjum Zaragoza liðsins eða 2,4 sinnum að meðaltali í leik.

Troðslur Tryggva í fyrstu fimm leikjunum í vetur eru þrjár, ein, þrjár, tvær og þrjár. Hann er með búinn að skora samtals 26 körfur í þessum leikjum og 46 prósent þeirra hafa komið með því að troða boltanum í körfuna.

Tryggvi Snær Hlinason hefur skorað yfir tíu stig í öllum leikjunum en hann er með 12,2 stig, 6,2 fráköst og 16,8 framlagssstig að meðaltali á 19,6 mínútum spiluðum í leik.

Tryggvi tróð boltanum alls 25 sinnum á öllu tímabilinu í fyrra eða 0,9 sinnum að meðaltali í leik og er því að troða mun oftar á þessu tímabili.

Hér fyrir neðan má sjá tvær af troðslum Tryggva um helgina í tilþrifapakka frá leiknum.

Það er heldur enginn í spænsku deildinni sem hefur gert betur en Tryggvi þegar kemur að troðslum. Næstur á lista er hinn 220 sentimetra miðherji Real Madrid, Edy Tavares, sem er með 2,3 troðslur að meðaltali í fjórum leikjum eða samtals níu troðslur.

Tryggvi og Edy Tavares eru í nokkrum sérflokki þegar kemur að því að troða boltanum í körfuna en hér fyrir neðan er topplistinn sem er tekinn úr opinberri tölfræði ACB-deildarinnar.

Flestar troðslur í leik til þessa í ACB-deildinni 2020-21:

  • 1. Tryggvi Snær Hlinason, Casademont Zaragoza 2,4
  • 2. Edy Tavares, Real Madrid 2,3
  • 3. Babatunde Olumuyiwa, MoraBanc Andorra 1,6
  • 4. Jacob Wiley, Herbalife Gran Canaria 1,5
  • 5. Juampi Vaulet, BAXI Manresa 1,4
  • 5. Ondrej Balvin, RETAbet Bilbao Basket 1,4
  • 5. Dejan Kravic, Hereda San Pablo Burgos 1,4
  • 5. Mike Tobey, Valencia Basket Club 1,4
  • 5. Malik Dime, MoraBanc Andorra 1,4



Fleiri fréttir

Sjá meira


×