Körfubolti

Leikið á Akureyri í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR - Keflavík Domino's deild karla, veturinn 2019 - 2020. Körfubolti.
KR - Keflavík Domino's deild karla, veturinn 2019 - 2020. Körfubolti. Foto: Daniel Thor/Daniel Thor

Flest bendir til þess að leikur Þórs Ak. og Keflavíkur í Domino's deild karla í kvöld fari fram eins og áætlað var.

Sóttvarnayfirvöld hafa hvatt íþróttafélög til að gera hlé á æfingum og keppni fyrir börn og fullorðna næstu tvær vikurnar vegna kórónuveirufaraldursins. Þá eru íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu hvött til þess að fresta öllum keppnisferðum út á land.

Þrátt fyrir þetta er leikurinn fyrir norðan í kvöld enn á dagskrá. 

„Hvorugt liðið er á höfuðborgarsvæðinu og Keflvíkingar voru komnir langleiðina til Akureyrar þegar þessar fréttir bárust. Dómararnir voru líka komnir upp í flugvél. Við tilkynnum það sérstaklega ef þetta breytist,“ sagði Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ, við Vísi í dag.

Auk leiksins á Akureyri eru sjö leikir í yngri flokkum á dagskrá auk leiks Hamars/Þórs og Stjörnunnar í 1. deild kvenna.

„Ef félögin koma sér saman um að fresta leikjum í dag eða þar til nánari tilmæli berast þá frestum við þeim vandræðalaust. Við tökum frekari ákvörðun með leikinn í 1. deild kvenna á eftir,“ sagði Snorri en stjórn KKÍ og mótanefnd fundar klukkan 16:00 í dag, eftir upplýsingafund sóttvarnayfirvalda.

Viðureign Þórs Ak. og Keflavíkur átti að fara fram á föstudaginn en var frestað vegna þess að nokkrir Keflvíkingar voru í sóttkví fram yfir leikdag.

Leikur Þórs Ak. og Keflavíkur hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×