Handbolti

Arnar Daði: Þetta er bara það sem er boðið uppá í efstu deild á Ís­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Daði Arnarsson er þjálfari Gróttu í Olís deild karla.
Arnar Daði Arnarsson er þjálfari Gróttu í Olís deild karla. vísir/s2s

„Ógeðslega lélegt“ voru fyrstu viðbrögð hjá Arnari Daða Arnarssyni, þjálfara Gróttu eftir þriggja marka tap gegn Aftureldingu á heimavelli í Olís deild karla í handbolta fyrr í kvöld.

„Ég veit ekki af hverju það er alltaf verið að tala um lítil gæði, þetta er bara það sem er boðið uppá í efstu deild á Íslandi. Fjölmiðlamenn og sérfræðingar verða bara að fara að sætta sig við það.“

„Auðvitað hefðum við vilja spila betur, enn frammistaðan hjá öllu liðinu var ekki nægilega góð fyrir utan hjá dýrinu í markinu“ sagði Arnar Daði sem hrósar að sjálfsögðu Stefáni Huldari frammistöðuna í marki liðsins.

Arnar Daði segir þó að varnarlega hafi liðið verið ágætt en það vantaði talsvert upp á sóknarlega.

„Mínir fyrstu þrír menn fyrir utan voru 4/20, svo kom Jóhann Reynir inn með 1/4, svo þetta eru þrjú mörk úr 24 skotum. Þú vinnur ekki leik þannig“ sagði Arnar Daði en þetta eru vissulega fimm mörk en ekki þrjú, engu að síður afleitt skotnýting

„Það er samt ótrúleg seigla í þessu liði að enda bara þremur mörkum undir með þessa skotnýtingu. Við lentum í áföllum í leiknum líka, Daníel Griffin og Gunnar Dan fara meiddir af velli svo við neyddumst til að hætta í sjö á sex“ sagði Arnar Daði

Arnar Daði tekur undir það að leikmönnum skorti sjálfstraust og það vanti leikmenn til að taka loka ákvörðun í sókninni.

„Það er ekkert launungamál að ég er með unga og óreynda stráka sem eru að taka sín fyrstu skref. Það er margt að læra, við erum ekkert að fara yfir andstæðingana á hverjum degi, við erum líka bara að kenna þeim handbolta og að spila sem lið, þetta tekur bara tíma.“

„Enn við förum ekkert í felur með það að þessi frammistaða var ekki góð í dag“ sagði Arnar Daði að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×