Handbolti

Harmar ofnotkun „Kaíró“ kerfisins sem kallað er „Ísland“ í Þýskalandi

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Sigtryggsson stakk upp á að lið yrðu verðlaunuð fyrir að spara Kaíró-kerfið og sagði mörg önnur kerfi í boði.
Rúnar Sigtryggsson stakk upp á að lið yrðu verðlaunuð fyrir að spara Kaíró-kerfið og sagði mörg önnur kerfi í boði. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Rúnar Sigtryggsson flutti eldræðu í síðasta þætti Seinni bylgjunnar þar sem hann gagnrýndi íslensk lið fyrir ofnotkun á Kaíró-leikkerfinu, kerfi sem sé kallað „Ísland“ í þýska handboltanum.

„Hvaða Kaíró-geðveiki er þetta hérna á Íslandi?“ spurði Henry Birgir Gunnarsson, þáttastjórnandi Seinni bylgjunnar.

Flestir Íslendingar ættu að kannast við Kaíró-leikkerfið sem íslenska landsliðið hefur notað afar oft í gegnum tíðina, rétt eins og íslensk félagslið:

„Mér þætti voðalega vænt um að menn myndu aðeins minnka þetta. Við þyrftum að setja einhvern kvóta á þetta. Þetta er bara of mikið. Og eins og við vitum eru línumenn kannski ekki bestir með boltann. Þeir eru látnir hlaupa frá öðru horninu yfir í hitt og skila boltanum almennilega frá sér… Það eru til auðveldari leikkerfi með stöðufærslum en þetta. Við spilum þetta kerfi það mikið að í Þýskalandi heitir þetta kerfi Ísland,“ sagði Rúnar, og hélt áfram:

Af hverju er ekki dæmd leikleysa?

„Þetta er líka svona með leikmennina. Þeim finnst voðalega þægilegt að spila Kaíró, eins og að þetta sé bara mjög góð byrjun á sókn. Eins og að láta boltann ganga þrisvar sinnum. Mér finnst handboltinn líða fyrir þetta. Það er minna tempó í sóknarleiknum, þetta hefur áhrif á sendingagetu, það er minni hraði á boltanum.“

Rúnar benti einnig á að þegar að dómarar hefðu lyft upp hendi til marks um að það væri að koma leiktöf þá skyti skökku við að lið mættu stilla upp í Kaíró:

„Línumaðurinn fær boltann og er að fara frá markinu. Það er bara leikleysa, en það er aldrei dæmt. Það er bara of mikið um þetta. Við kannski förum að gefa verðlaun til þeirra sem spila sjaldnast Kaíró, bara svona til að gera þetta aðeins skemmtilegra,“ sagði Rúnar.

Klippa: Seinni Bylgjan - Cairo umræða Rúnars



Fleiri fréttir

Sjá meira


×