Körfubolti

Hlynur Bærings: Bara „glorified“ æfingaleikur

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Hlynur Bæringsson
Hlynur Bæringsson vísir/vilhelm

Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði og fyrirliði Stjörnunnar, var sáttur með sigur í Meistarakeppni KKÍ í kvöld gegn Grindavík, 106-86.

Leikurinn er yfirleitt kallaður Meistari meistaranna og þrátt fyrir góðan fyrri hálfleik var niðurstaðan ljós áður en lokafjórðungurinn var byrjaður. “Það var á einhverjum tímapunkti í leiknum sem ég hugsaði ‘Þarna snerist þetta,’” sagði Hlynur þegar hann var spurður hvenær honum hefði fundist þetta vera komið. „Við mölluðum þetta aðeins yfir, allan leikinn. Hægt og rólega,“ sagði hann um hvernig honum hefði þótt liðið taka yfir í leiknum.

Þó að lokastaðan hafi verið 20 stiga munur á liðunum þá var staðan nokkuð jöfn í fyrri hálfleik, 56-50. Hlynur sagði að liðið hefði rætt saman í hálfleik hvað þyrfti að batna og farið eftir því. „Þeir tóku of mikið af sóknarfráköstum og við vorum að gefa helling af keyrslum inn í teig. Svo tókum við okkur bara saman í andlitinu,“ sagði hann um frammistöðu sinna manna í leiknum.

Í gegnum tíðina hafa menn rætt hvort að þessi leikur sé yfirleitt spennandi og hvort þessi titill, Meistari meistaranna, sé yfir höfuð einhvers virði. Skiptir þessi bikar Hlyn einhverju máli? „Nei, get ekki sagt það, eiginlega bara skemmtilegra að vinna,“ sagði Hlynur og bætti við: „Þetta er eiginlega bara vegsamaður æfingaleikur, ég myndi segja það. Ekki alveg æfingaleikur, en lítið skárri en það.“ 

Margir ungir leikmenn Stjörnunnar fengu nóg að gera í leiknum, fyrst að leikurinn var ekki spennandi í fjórða leikhluta. „Já, nokkrir sem komu vel inn hjá okkur,“ sagði Hlynur um næstu kynslóð leikmanna, sem sumir gætu verið synir hans.

 Mirza Sarajlija, nýr erlendur leikmaður Stjörnunnar, er alls ekkert unglamb og sýndi reynsluna í kvöld með því að setja sjö þrista í ellefu tilraunum (63% þriggja stiga nýting). Það getur varla verið leiðinlegt að deila vellinum með mönnum sem eru góðir að skjóta þristum. „Já, hann er mjög góður í því, menn eiga að nýta það sem þeir eru góðir í,“ sagði Hlynur og hafði engar áhyggjur af því að þurfa ekki að skjóta jafn marga þrista og áður. „Hann má skjóta eins mikið og hann vill. Ég þarf ekkert fleiri skot,“ sagði Hlynur léttur áður en hann hélt inn í klefa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.