Viðskipti innlent

Félag Björgólfs fær sjötíu milljarða fyrir sölu á Play

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgólfur Thor Björgóflsson, eigandi Novator.
Björgólfur Thor Björgóflsson, eigandi Novator. Vísir/getty

Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu kaupsýslumannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur samþykkt kauptilboð í pólska fjarskiptafyrirtækið Play. Kaupandinn er franska fjarskiptafyrirtækið Iliad Group. Hlutur Novator í Play er metinn á 440 milljónir evra, eða rétt rúman 71 milljarð íslenskra króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Novator. Með kaupunum gerir Iliad Group öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Gengi viðskiptanna er tæpum 39 prósentum hærra en lokagengi Play í pólsku kauphöllinni á föstudaginn, að því er segir í tilkynningu. Miðað við það er markaðsvirði hlutafjár Play metið á 2,2 milljarða evra og hlutur Novator því 440 milljónir evra, líkt og áður segir.

Lítur til Suður-Ameríku

Haft er eftir Björgólfi Thor í tilkynningu að allt frá því að Play var stofnað fyrir fimmtán árum hafi markmiðið verið að byggja upp öflugt fjarskiptafyrirtæki. Hann sé stoltur af fjárfestingunni og þeim árangri sem Play hefur náð undir stjórn Novator.

Reynslan af uppbyggingu Play verði nú nýtt á öðrum mörkuðum. Í því sambandi horfi Novator til Suður-Ameríku.

Novator kom að stofnun Play árið 2005 í gegnum eignarhaldsfélagið P4. Félagið var þá valið í útboði pólska ríkisins til að hafa umsjón með uppbyggingu 3G-fjarskiptakerfisins í Póllandi. Félagið keypti 400 sölustaði í Póllandi árið 2007 og sama ár eignaðist Novator meirihluta í félaginu. Félagið var skráð á markað í Kauphöllinni í Varsjá árið 2017.

Play er nú orðið stærsta fjarskiptafélag Póllands með yfir fimmtán milljónir viðskiptavina og 28 prósent markaðshlutdeild.

Novator hefur fjárfest í fjarskiptafyrirtækjum víða um heim undanfarin ár. Fyrirtækið kom m.a. að stofnun Nova á Íslandi, WOM í Chile og vinnur nú að uppbyggingu WOM í Kólumbíu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×