Viðskipti innlent

Hægri hönd Björg­ólfs Thor hættir hjá Novator

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnhildur Sverrisdóttir tók við starfinu hjá Novator árið 2010.
Ragnhildur Sverrisdóttir tók við starfinu hjá Novator árið 2010.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novator, hyggst brátt láta af störfum eftir um tíu ár í starfi.

Þetta kemur fram í frétt Markaðarins í morgun. Novator er fjárfestingafélag Björgólfs Thor Björgólfssonar, og hefur Ragnhildur meðal annars komið fram sem talskona Björgólfs hér á landi og komið skoðunum hans og gögnum á framfæri í málum sem tengjast hruninu.

Ragnhildur segir í samtali við Vísi að starfslokin séu gerð í sátt og samlyndi og að nokkrar vikur séu síðan þetta hafi verið rætt. Hún muni þó starfa hjá Novator fram á vor og ljúka ákveðnum verkefnum.

Hún segir tímann hjá Novator hafa verið fjörugan og lærdómsríkan. „Þetta hafa verið mjög misjöfn og krefjandi verkefni sem ég hef tekist á við. Ég byrja þarna skömmu eftir hrun, í mars 2010. Það hafa verið brekkur en líka mjög skemmtilegt. Þetta eru mikil viðfangsefni sem Björgólfur og Novator hafa tekist á við og náð að vinna sig upp úr,“ segir Ragnhildur.

Hún segist ekki hafa ákveðið hvað muni taka við, en að það verði „eitthvað skemmtilegt“.

Ragnhildur á langan feril í fjölmiðlum að baki en hún starfaði lengi á Morgunblaðinu, bæði sem blaðamaður og fréttastjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×