Handbolti

Saga Sif: Ég ver ekki mikið með enga vörn

Benedikt Grétarsson skrifar
Saga Sif skipti yfir í Val fyrir tímabilið og sér ekki eftir því.
Saga Sif skipti yfir í Val fyrir tímabilið og sér ekki eftir því. Vísir/Vilhelm

Þetta var klárlega sanngjarn sigur í dag, sannkallaður liðssigur,“ sagði sigurreif Saga Sif Gísladóttir eftir góðan 28-24 sigur Vals gegn Fram í annarri umferð Olísdeildar kvenna í handbolta.

Saga lék virkilega vel í marki Vals en var hógvær eftir leikinn.

„Vörnin var frábær í dag en ég ver auðvitað ekkert voðalega mikið ef það er engin vörn fyrir framan mig“, sagði Saga brosandi og bætti við „Varnarleikurinn hjá stelpunum var gjörsamlega geggjaður og þetta er bara samvinna milli mín og þeirra.

Markvörðurinn öflugi varði gríðarlega mikilvægt hraðupphlaup undir lok leiksins þegar Fram hefði getað skorað fjórða markið í röð og minnkað muninn í eitt mark. Var komið stress í Sögu þegar forystan var að hverfa hægt og bítandi?

„Ég var eiginlega aldrei hrædd um að við værum að fara að missa þetta. Það var bara mikill karakter í liðinu allan tímann og við vinnum þennan leik, eins og ég sagði áðan, á góðri og sterkri liðsheild.“

Saga Sif skipti yfir í Val frá Haukum fyrir tímabilið og sér ekki eftir þeim vistaskiptum.

„Við erum þó nokkrar sem erum nýjar í Val en þetta er bara frábært umhverfi og frábær umgjörð til að spila handbolta við. Það var tekið ótrúlega vel á móti mér og við höfum, þrátt fyrir Covid, æft mjög vel og ég vona að það sjáist á vellinum,“ sagði Saga Sif að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×