Umfjöllun og viðtöl: Fram - HK 25-24 | Háspenna í Safamýri

Benedikt Grétarsson skrifar
Ragnheiður Júlíusdóttir
Ragnheiður Júlíusdóttir vísir/vilhelm

Bikarmeistarar Fram hefja leik í Olísdeild kvenna með sigri en Fram þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum gegn baráttuglöðu liði HK á heimavelli sínum í Safamýri í kvöld. Lokatölur urðu 25-24 en HK fór illa með lokasókn sína þegar liðið freistaði þess að krækja í eitt stig. 

Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði 12 mörk fyrir Fram og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 11 skot í markinu. Markahæst gestanna var Díana Kristín Sigmarsdóttir með níu mörk og Sara Sif Helgadóttir varði tíu skot í markinu.

Fram byrjaði leikinn betur og gestunum gekk bölvanlega að koma boltanum framhjá Katrínu Ósk Magnúsdóttur í markinu en Katrín varði átta skot í fyrri hálfleik og var með 45% markvörslu.

Fram komst í 5-1 og líklega héldu margir á þessum tímapunkti að HK yrði slátrað í Safamýrinni. Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK tók þá leikhlé og við það hresstust hans konur töluvert.

HK minnkaði muninn í aðeins tvö mork í stöðunni 9-7 þegar um sjö mínútur voru til hálfleiks en lokakafli fyrri hálfleiks tilheyrði Fram og bikarmeistararnir héldu í búningsherbergið með nokkuð þægilegt forskot, 14-10.

Seinni hálfleikur færði með sér mikla baráttu og spennu. HK mætti með blóð á tönnum og lék frábæran varnarleik gegn hikandi sóknarleik Fram.

Fyrr en varði voru gestirnir komnir á fullum krafti inn í leikinn og lokakaflinn var æsispennandi.

Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sitt tólfta mark og kom Fram í 25-23 þegar skammt var til leiksloka Elna Ólöf Guðjónsdóttir minnkaði muninn jafnharðan. Ragnheiður skaut framhjá markinu í lokasókn Fram og HK hafði tæplega 30 sekúndur til að krækja í jafntefli. Lokasóknin var hins vegar ekki upp á marga fiska og Framarar fögnuðu innilega í leikslok.

Lokatölur, 25-24.

Af hverju vann Fram leikinn?

Vörn og markvarsla var umtalsvert betri en gegn Þór/KA í leiknum um Meistara meistaranna nýverið. Sóknin hikstaði vissulega töluvert á köflum en það verður líka að hrósa HK fyrir ágætan varnarleik. Fram er með reynslumikla leikmenn og kannski réðu ákveðin klókindi úrslitum í dag. HK-liðið virtist fara svolítið á taugum á ögurstundu og líklega má skrifa það á reynsluleysi.

Hverjar stóðu upp úr?

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 11 skot í marki Fram og tók nokkur mikilvæg dauðafæri. Katrín var slök lengstum i seinni hálfleik eftir góða frammistöðu í þeim fyrri en steig svo upp á mikilvægum augnablikum undir lok leiks. Ragnheiður Júlíusdóttir er markavél og skilaði að venju miklu framlagi í sókn og vörn. Steinunn BJörnsdótti r batt varnarleikinn lengstum vel saman.

Elna Ólöf Guðjónsdóttir og Alexandra Líf Arnarsdóttir léku virkilega vel í hjarta varnar HK og Sara var ágæt í markinu með 33% markvörslu. Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir er mjög spennandi og kraftmikill leikmaður en gerði sig líka seka um slæma færanýtingu í dauðafærum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða hefur verið betur smurður en hafa ber í huga að bæði lið léku gegn fantavarnarleik. Það gekk líka illa hjá Fram að koma reyndum og góðum leikmönnum á borð við Hildi Þorgeirsdóttur og Unni Ómarsdóttur almennilega inn í leikinn.

Hvað gerist næst?

Fram fer í stutta strætóferð að Hlíðarenda og mætir þar Val í sannkölluðum stórleik.

Þetta stórskemmtilega HK-lið mætir ÍBV í Kópavoginum.

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.VÍSIR/BÁRa

Stefán: Allt ömurlegt samkvæmt sérfræðingum

Stefán Arnarson, þjálfari Fram var sáttur við nauman sigur gegn HK. Fyrir leik hafa vafalaust flestir „spekingar“ spáð Fram öruggum sigri en Stefán blæs á slíkt tal.

„Þetta er bara ekki þannig. Þetta er mjög jöfn deild og fyrstu leikirnir eru alltaf erfiðir. Það breytir engu hvernig gengi liðum er spáð fyrir mót og það sást kannski vel í gær hjá körlunum þegar nýliðarnir voru næstum búnir að vinna tvö hörkulið. Við erum fyrst og fremst ánægð með þessi tvö stig sem við fengum.“

Fram lék ekki vel gegn KA/Þór fyrir skömmu og umræðan eftir þann leik var ekkert að fara sérstaklega í okkar mann.

„Mér finnst þetta alveg magnað. Við töpuðum fyrir KA/Þór en þá höfðum við ekki tapað handboltaleik síðan í september 2019. Svo töpum við leik og þá er allt í einu allt orðið ömurlegt samkvæmt ykkur sérfræðingunum. Það var bara gott að vinna hérna í kvöld.“

Hvað gladdi Stefán helst?

„Ég er ánægðastur með varnarleikinn í fyrri hálfleik. Við fáum á okkur tvö mörk fyrsta korterið en sömuleiðis klikkum við á fjölmörgum dauðafærum. Við hefðum átt að vera með stærri forystu í hálfleik en svo er HK bara grimmari og betri en við í seinni hálfleik. Ég þarf bara aðeins að skoða þetta en við náðum að sigla þessu heim,“ sagði Stefán og bætti við,

„Markvarslan var ekki góð heilt yfir en Katrín tók þrjá frábæra bolta hérna undir lokin og sennilega var það hennar frammistaða sem skilaði okkur þessum tveimur stigum,“ sagði Stefán að lokum.

Halldór Harri: Frábær frammistaða

„Við sýnum góðan baráttuanda og gáfumst aldrei upp. Sú barátta skilaði okkur tækifærinu að taka annað stigið undir lokin en það kemur bara smá stress undir lokin. Líklega var tilhugsunin að taka loksins stig af Fram, eitthvað sem var erfitt að komast yfir,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson eftir naumt tap HK gegn Fram.

Hvað átti að teikna upp í lokasókninni?

„Við ætluðum að gera það sem við höfðum verið gera allan leikinn en því miður tókst það ekki. Frammistaðan var samt frábær og ein vitlaus ákvörðun undir lok leiksins breytir því ekkert.“

HK lék grimman varnarleik og allir leikmenn liðsins gáfu allt í verkefnið. Það gladdi þjálfarann eðlilega mikið.

„Við erum að spila framliggjandi vörn og gerum það bara virkilega vel. Við töluðum um að fara héðan með þá tilfinningu að hafa gert okkar besta og gefið allt í leikinn. Það gerðum við í kvöld. Okkar leikur krefst mikillar orku og stelpurnar eiga hrós skilið að halda þetta út.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira