Körfubolti

Hetjurnar klikkuðu báðar á lokasekúndum og Lakers tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James vantaði bara eina stoðsendingu upp á það að ná þrennunni í nótt.
LeBron James vantaði bara eina stoðsendingu upp á það að ná þrennunni í nótt. Getty/Harry How
Anthony Davis hefði getað tryggt Los Angeles Lakers liðinu sigur og LeBron James þrennu með lokaskotinu í nótt en það klikkaði og fjögurra leikja sigurganga Lakers endaði á heimavelli á móti Brooklyn Nets.

Spencer Dinwiddie skoraði 23 stig þegar Brooklyn Nets vann 104-102 sigur á Los Angeles Lakers og það í Staples Center. Þetta er fyrsta tap Lakers á heimavelli í meira en mánuð eða síðan 6. febrúar.

Lakers menn höfðu unnið stóra sigra á Milwaukee Bucks og Los Angeles Clippers í síðustu leikjum sínum en töpuðu nú fyrir liðinu í sjöunda sæti í Austurdeildinni.





Brooklyn Nets liðið er þar með búið að vinna tvo fyrstu leiki sína eftir að Jacque Vaughn tók tímabundið við liðinu. Það var náttúrulega enginn Kyrie Irving með Booklyn í þessum leik en tímabilið er búið hjá honum.

Báðar hetjur Lakers liðsins klikkuðu á lokasekúndunum. Fyrst klúðraði LeBron James sniðskoti þegar níu sekúndur voru eftir en Lakers fékk boltann aftur. LeBron James bjó þá til þriggja stiga skot fyrir Anthony Davis en það geigaði.

Anthony Davis hefði ekki aðeins tryggt Lakers liðinu sigur hefði hann hitt heldur hefði LeBron James þá einnig endað með þrennu. LeBron James var með 29 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar. Davis skoraði 20 af 26 stigum sínum í seinni hálfleiknum.





Boston Celtics tryggði sér sæti í úrslitakeppninni sjötta árið í röð með útisigri á Indiana Pacers en Jayson Tatum skoraði 30 stig fyrir Boston og Gordon Hayward var með 27 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar.

James Harden skoraði 37 stig þegar Houston Rockets vann Minnesota Timberwolves og endaði fjögurra leikja taphrinu sína.





Stórleikur Luka Doncic dugði ekki Dallas Mavericks en liðið tapaði á móti San Antonio Spurs þrátt fyrir að Slóveninn væri með 38 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar á 36 mínútum. LaMarcus Aldridge kom aftur inn í lið Spurs eftir meiðsli og skoraði 24 stig.





Úrslitin í NBA í nótt:

Golden State Warriors - Los Angeles Clippers 107-131

Los Angeles Lakers - Brooklyn Nets 102-104

Portland Trail Blazers - Phoenix Suns 121-105

Chicago Bulls - Cleveland Cavaliers 108-103

Houston Rockets - Minnesota Timberwolves 117-111

Memphis Grizzlies - Orlando Magic 115-120

San Antonio Spurs - Dallas Mavericks 119-109

Indiana Pacers - Boston Celtics 111-114

Washington Wizards - New York Knicks 122-115











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×