Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - KR 81-87 | KR-ingar upp í 4. sætið eftir sigur í Njarðvík

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Jakob Örn átti flottan leik í kvöld ásamt öllu KR liðinu
Jakob Örn átti flottan leik í kvöld ásamt öllu KR liðinu Vísir

Íslandsmeistarar KR heimsóttu Njarðvíkinga í Ljónagryfjuna í kvöld í stórleik umferðarinnar í Dominos-deild karla.

Njarðvíkingar komust í 5-3 en KR-ingar náðu þá forystunni og létu hana ekki af hendi aftur í leiknum. KR lék hálfan fyrsta leikhlutann mjög vel en Njarðvíkingar komust hægt og bítandi aftur inn í leikinn og náðu góðum endaspretti í fyrsta leikhluta og náðu að minnka muninn í fjögur stig að honum loknum 18-22.

KR voru sterkari aðilinn í öðrum leikhluta og juku forystu sína hægt og bítandi en að loknum öðrum leikhluta leiddu þeir með 9 stigum, 31-40.

Íslandsmeistararnir byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og komust 18 stigum yfir en það var mesti munurinn á liðunum í leiknum. Hins vegar tóku Njarðvíkingar við sér í kjölfarið af því. Maciej Baginski setti í fluggírinn fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður fjóra slíka í þriðja leikhluta. Skyndilega var munurinn orðinn fjögur stig og allt opið fyrir lokaleikhlutann. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 58-62.

Eftir mikinn eltingarleik allan leikinn náðu Njarðvíkingar að jafna leikinn um miðbik fjórða leikhlutans. En KR-ingar sögðu þá hingað og ekki lengra og náðu aftur forystunni sem þeir héldu út leikinn. Lokatölur 81-87. Sterkur sigur hjá KR og eru þeir nú jafnir Tindastóli í 3-4. sæti, en Stólarnir eiga hins vegar leik til góða. Njarðvík og Haukar eru tveimur stigum á eftir KR og Tindastóli en bæði liðin töpuðu sínum leikjum í kvöld.

Af hverju vann KR?

Heilt yfir áttu Íslandsmeistararnir skilið að vinna þennan leik. Þeir leiddu allan leikinn og spiluðu heilt yfir mjög vel á báðum endum vallarins. Það hjálpar líka mikið þegar lið skorar yfir 50% á öllum stöðum vallarins. Það er vænlegt til árangurs.

Hverjir stóðu upp úr?

Það voru sex leikmenn í liði KR sem léku yfir 25 mínútur í leiknum. Þeir spiluðu lang stærstan hluta leiksins á sömu sex mönnunum og skiluðu þeir allir góðu dagsverki í kvöld.

Matti, Jakob, Craion, Brynjar og Kristó skoruðu allir 14 stig eða meira og KR spilaði sem lið í kvöld. Það klikkar seint.

Hjá Njarðvík var Mario stigahæstur með 22 stig og 13 fráköst.

Hvað gekk illa?

Njarðvíkingar byrjuðu alla leikhlutana illa og kostar það sitt. Þá voru þeir á köflum afar slappir varnarlega og má ekki við því gegn sterku liði líkt og KR

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga stóra leiki í næstu umferð. Njarðvíkingar kíkja í Hafnafjörðinn og mæta þar Haukum en bæði lið eygja von um að ná fjórða sætinu af KR-ingum. Íslandsmeistararnir fá nýkrýnda bikarmeistara og topplið Stjörnunnar í stórleik umferðarinnar.

Kristó: Það er byrjað að vora

Kristófer Acox átti flottan leik hjá KR-ingum í kvöld og var með 14 stig og 10 fráköst. Tvöfalda tvennu svokallaða. Heilt yfir átti KR-liðið fínan leik í kvöld og verðskuldaði sigurinn.

„Við erum að komast í gírinn og sína okkar rétt andlit. Þetta hefur verið erfiður vetur og það styttist í alvörunni.“

Það styttist óðum í að úrslitakeppnin hefjist og er það að margra mati skemmtilegasti tími ársins í körfuboltanum.

„Það er byrjað að vora og vonandi er þetta það sem koma skal.“

Kristó hefur gengið í gegnum margt á þessu tímabili, veikst illa og meiðst. Hann er hins vegar allur að koma til og mun aðeins vaxa það sem eftir lifir veturs.

„Styrkurinn er að koma hægt og rólega og mér líður vel.“

Maciej: Þetta var ömurlegt hugarfar

Maciej Baginski var að vonum ósáttur með tap Njarðvíkinga gegn Íslandsmeisturum KR í kvöld.

„Við vorum alltof mikið á hælunum. Við vorum skelfilegir varnarlega í fyrri hálfleik.“

Njarðvíkingar komu ekki nægilega öflugir til leiks í upphafi allra leikhlutanna og það kostaði sitt.

„Þetta er ömurlegt hugarfar hjá okkur, það er engin afsökun yfir þessu.“

KR-ingar leiddu nær allan leikinn og náðu mest 18 stiga forystu. Þá komu hins vegar Njarðvíkingar til baka en náðu hins vegar aldrei fullum tökum á leiknum.

„Við byrjuðum alltof seint. Við komum hauslausir út úr hálfleiknum, sem er óboðlegt. Hefðum við komið út eins og menn úr hálfleiknum, væri þetta allt annar leikur.“

Ingi: Fannst við eiga skilið að vinna þennan leik

Ingi Þór Steinþórsson var sáttur í leikslok með sigur KR-inga gegn Njarðvík í kvöld. KR mætti með laskað lið til leiks og spilaði mest megnis á 6 leikmönnum í leiknum. Það heppnaðist í kvöld.

„Það gerði það í dag en það mun ekki ganga í úrslitakeppninni. Ég er mjög stoltur af frammistöðunni í kvöld.“

Heilt yfir voru KR-ingar flottir í leiknum og áttu sigurinn skilið í leiknum.

„Ég var ekki ánægður með hvað þeir tóku mörg sóknarfráköst en annað var ég ánægður með. Mér fannst við eiga skilið að vinna þennan leik.“

Njarðvíkingar unnu fyrri leik liðanna með þremur stigum og var sigurinn í kvöld því enn mikilvægari í ljósi þess að KR-ingar eiga nú innbyrðisviðureignina á Njarðvík verði liðin jöfn að stigum.

„Það var risastórt hjá okkur. Það er svo jafnt í þessari deild og stutt á milli. Við stefnum á að fá heimaleikjarétt í fyrstu umferð í úrslitakeppninni.“

Einar: Frammistaðan var kjaftshögg

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur var ósáttur í leikslok eftir tap sinna manna gegn KR í kvöld.

„Það voru margar mjög vondar ákvarðanir á báðum endum vallarins. Við vorum ólíkir sjálfum okkur á ótrúlega margan máta. Þetta var skárra í seinni hálfleik.“

Erik Katenda lék aðeins í fjórar mínútur í kvöld en hann hefur verið í basli síðan hann kom til landsins og gekk til liðs við Njarðvík

„Hann kemur hingað veikur og snéri sig á æfingu á miðvikudag þannig hann hefur lítið æft með okkur. Það verður að koma í ljós hvert hlutverk hans verður.“

Einar var alls ekki ánægður með frammistöðu Njarðvíkur í kvöld en það er langt síðan síðasti leikur liðsins var eftir landsleikjapásu.

„Frammistaðan var kjaftshögg. Að bíða allan þennan tíma og að það sé ekki meiri áræðni í okkur er vonbrigði.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira