Körfubolti

Elvar Már með 19 stig í ótrúlegum sigri Borås

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar Már, hér í leik með Njarðvík, var frábær í liði Borås í kvöld.
Elvar Már, hér í leik með Njarðvík, var frábær í liði Borås í kvöld. Vísir/Bára

Leikstjórnandinn Elvar Már Friðriksson skoraði 19 stig í ótrúlegum eins stigs sigri Borås Basketball á Wetterbygden Stars í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 103-102 þar sem Borås voru undir nær allan síðasta fjórðung leiksins.

Leikurinn var mjög fjörugur og ljóst að bæði lið voru ekki í neinu sérstöku stuði til að spila vörn. Staðan var jöfn 28-28 eftir 1. leikhluta en gestirnir í Wetterbygden leiddu með tveimur stigum í hálfleik, staðan þá 49-47. Áfram voru gestirnir með yfirhöndina þegar síðasti fjórðungur hófst en munurinn þá þrjú stig. 

Borås voru nær alltaf skrefi á eftir gestunum og leit út fyrir að toppliðið myndi tapa nokkuð óvænt á heimavelli þangað til leikurinn var í þann mund að renna sitt skeið. Þá náðu Borås nokkrum góðum körfum og snéru leiknum sér í vil í þann mund sem leikurinn kláraðist.

Elvar Már var með 19 stig í leiknum ásamt því að hann gaf átta stoðsendingar í liði Borås sem situr sem fyrr á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar með 52 stig eftir 30 leiki. Liðið hefur unnið 26 leiki og aðeins tapað fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×