Körfubolti

Einn sá besti í NBA-deildinni þykir vera mikill eðalnáungi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Lillard hefur átt rosalegt tímabil í NBA-deildinni.
Damian Lillard hefur átt rosalegt tímabil í NBA-deildinni. Getty/Garrett Ellwood

Damian Lillard fær ekki aðeins hrós fyrir frammistöðu sína inn á körfuboltavellinum heldur einnig fyrir framkomu sína utan hans.

Damian Lillard hefur lengi verið frábær leikmaður í NBA-deildinni í körfubolta en hann hefur skipti um gír með magnaðri frammistöðu í vetur.

Lillard er 29 ára gamall leikstjórnandi sem spilar með Portland Trail Blazers og er á sínu áttunda tímabili í NBA-deildinni.

Damian Lillard er með 29,9 stig og 7,9 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili en hafði mest áður verið með 27,0 stig (2016-17) og 6,9 stoðsendingar (2018-19) að meðaltali á einu tímabili. Lillard er að hækka sig mikið frá síðasta tímabili eða um 4,1 stig og 1,0 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Það er ekki aðeins frábær spilamennska sem er til umræðu á samfélagsmiðlum þegar kemur að Damian Lillard.

Mark Jones, fjölmiðlamaður á ESPN, sá nefnilega ástæðu til að hrósa Damian Lillard mikið fyrir framkomu sína utan vallar eins og sjá má hér fyrir neðan.



„Fyrir utan að vera úrvalsliðsleikamaður í NBA-deildinni þá sýnir Damian Lillard okkur fjölmiðlamönnum mikla virðingu. Hann spyr okkur hvað sé að frétta af fjölskyldum okkar. Núverandi og fyrrum liðsfélagar hans hafa líka farið heim til hans í mat. Hann skipuleggur liðssamkomur. Hann umgengst fimmtánda manninn eins og hann sé stjörnuleikmaður. Leiðtogi,“ skrifaði Mark Jones inn á Twitter-reikninginn sinn.

Síðustu nótt þá skoraði Damian Lillard yfir 30 stig í þrettánda skiptið það sem af er nýju ári sem er það mesta hjá einum leikmanni í NBA-deildinni.

Damian Lillard er eins og er í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn NBA deildarinnar og í sjötta sæti yfir þá sem gefa flestar stoðsendingar.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×