Handbolti

Sportpakkinn: „Viljum stemmningu, læti og gleði en að áhorfendur sýni háttvísi og séu ekki með óþverraskap“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn ÍBV létu ófriðlega í bikarleiknum gegn FH.
Stuðningsmenn ÍBV létu ófriðlega í bikarleiknum gegn FH. vísir/valli

Vankantar voru á framkvæmd leiks ÍBV og FH í Vestamannaeyjum í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikars karla á fimmtudaginn og framkoma stuðningsmanna ÍBV var ekki til fyrirmyndar.

„Við fengum skýrslu eftirlitsmanns þar sem hann fer yfir ákveðna þætti sem vankantar voru á, varðandi framkvæmd leiksins og hegðun áhorfenda,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

„Þetta mál fer inn til mótanefndar sem hefur kallað eftir frekari skýringum og greinargerðum frá málsaðilum. Í kjölfarið tekur mótanefnd væntanlega á málinu og hefur úrræði sem hún getur beitt ef þurfa þykir.“

En hvaða refsingum er hægt að beita í málum sem þessum?

„Sem betur fer eru ekki mörg fordæmi fyrir slæmri hegðun áhorfenda en þó einhver. Í flestum tilfellum hafa svona mál verið afgreidd með sektum og áminningu. En það er of snemmt fyrir mig að segja til um þetta atvik. Það er í meðferð mótanefndar og engin niðurstaða komin ennþá,“ sagði Róbert.

Hann segir að ef hegðun stuðningsmanna ÍBV hafi verið eins og henni hefur verið lýst sé það ekki í lagi.

„Ef satt reynist er það ekki í lagi. Við viljum vissulega stemmningu, læti og gleði á leikjum en að áhorfendur sýni háttvísi og séu ekki með óþverraskap,“ sagði Róbert.

„Almennt séð hafa áhorfendur hagað sér vel. Eyjamenn mega eiga það að þeir eru í þessu af lífi og styðja sitt lið að öllu afli. En við þurfum samt að gæta háttvísi,“ sagði Róbert.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Vankantar á framkvæmd leiksins í Eyjum

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×