Handbolti

Mæðraskilaboð Eyjamanna og lætin fyrir utan klefa FH eru nú á borði hjá HSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn ÍBV hafa áður komist í fréttirnar fyrir skrílslæti.
Stuðningsmenn ÍBV hafa áður komist í fréttirnar fyrir skrílslæti. Vísir/Daníel

Ferð FH-inga til Vestmannaeyja í síðustu viku var ekki skemmtileg. Þeir töpuðu leiknum, duttu út úr bikarnum og máttu einnig þola mikil leiðindi af hálfu stuðningsmanna Eyjamanna.

Stuðningsmenn ÍBV mættu meðal annars með myndir af mæðrum leikmanna í stúkuna og öskruðu og börðu á klefahurðina eftir leik þar sem ýmislegt var sagt um leikmennina. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildarinnar, vildi ekki tjá sig um málið við Fréttablaðið en blaðamaðurinn fékk meira upp úr leikmönnum FH-liðsins.

„Þeir voru með myndir af mæðrum okkar í stúkunni og voru búnir að skrifa alls konar skilaboð á þær myndir. Það angraði mann lítið í leiknum. Eftir leik fórum við inn í klefa og þá voru læti í þeim, einhverjir 15-20 að berja á hurðina, segja að við værum aumingjar og fleira,“ sagði einn leikmaður FH-liðsins við Fréttablaðið.

Hvíti Riddarinn, stuðningsmannasveit ÍBV í handboltanum, hefur áður komið sér í fjölmiðla fyrir skrílslæti.

Róbert Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti við Fréttablaðiðað málið væri komið inn á borð til sín og nú færi af stað vinna til að afla frekari gagna. „Við höfum heyrt að eitthvað hafi gengið á eftir bikarleik ÍBV gegn FH. Við höfum fengið skýrslu frá eftirlitsdómara og erum að afla frekari gagna áður en málið verður tekið fyrir hjá okkur,“ sagði Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×