Körfubolti

Hlynur: Ógeðslega gaman að spila í Höllinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur skoraði 13 stig og tók ellefu fráköst.
Hlynur skoraði 13 stig og tók ellefu fráköst. vísir/bára

„Ég átti ekki von á þessu. Ég bjóst við jöfnum leik ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar, eftir sigurinn örugga á Tindastóli, 70-98, í undanúrslitum Geysisbikars karla í kvöld.

Stjarnan var tveimur stigum yfir í hálfleik, 43-45, en í seinni hálfleik voru yfirburðir Garðbæinga miklir. Þeir unnu seinni hálfleikinn, 53-27.

„Við stöðvuðum sóknarfráköstin þeirra. Þeir náðu mörgum slíkum í fyrri hálfleik og fengu opin skot upp úr vissum stöðum sem þeir nýttu ágætlega. Í seinni hálfleik fengum við líka hraðaupphlaupsstöður þar sem Ægir sprengdi leikinn upp,“ sagði Hlynur.

„Við spiluðum ekkert frábærlega í fyrri hálfleik, alls ekki. Tindastóll náði ekki fram sínu besta, það verður að viðurkennast.“

Vörn Stjörnunnar var mjög öflug í seinni hálfleik þar sem Tindastóll skoraði aðeins 27 stig.

„Það komu augnablik þar sem þeir klikkuðu á opnum skotum en heilt yfir náðum við að þvinga þá í erfið skot,“ sagði Hlynur.

Stjarnan mætir Grindavík í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Með sigri verða Stjörnumenn bikarmeistarar annað árið í röð og í fimmta sinn alls.

„Það er ógeðslega gaman að spila í Höllinni og ég er búinn a vinna nokkrum sinnum hérna. Ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að vinna aftur,“ sagði Hlynur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×