Körfubolti

Hlynur: Munaði um breiddina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur skoraði níu stig og tók tólf fráköst.
Hlynur skoraði níu stig og tók tólf fráköst. vísir/daníel

„Það losnaði aðeins um í seinni hálfleik. Þetta var svolítið stíft í þeim fyrri og lítið pláss. Spennustigið var frekar hátt eins og eðlilegt er,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við Vísi eftir sigurinn á Grindavík í úrslitaleik Geysisbikar karla í dag.

Grindvíkingar voru ákveðnir í fyrri hálfleik eins og Hlynur átti von á.

„Auðvitað. Þeir höfðu engu að tapa og þjöppuðu sér saman. Þeir voru flottir á löngum köflum í dag,“ sagði Hlynur. „En það munaði um breiddina. Við vorum með ferskari fætur.“

Líkt og í undanúrslitaleiknum gegn Tindastóli á miðvikudaginn seig Stjarnan fram úr í seinni hálfleik.

„Það er mjög hættulegt að fara á taugum. Það er ekki eins og við séum það góðir. Við vorum á góðu skriði áður en við töpuðum fyrir Val en slátruðum ekkert öllum leikjum,“ sagði Hlynur.

„Núna eru fimm leikmenn sem geta skorað inn á í öllum liðum sem var ekki. Hjá Grindavík eru leikmenn sem geta spilað og skorað í öllum stöðum.“

En hvað gefur þessi titill Stjörnumenn fyrir framhaldið?

„Sáralítið, þannig séð. Þetta gefur okkur sjálfstraust en styttri hvíld en hin liðin. Við þurfum að halda að bæta okkur,“ sagði Hlynur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×