Körfubolti

Ægir: Markmiðið að vinna alla titla sem í boði eru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægir fagnar með félögum sínum í leikslok.
Ægir fagnar með félögum sínum í leikslok. vísir/daníel

Ægir Þór Steinarsson var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiks Geysisbikars karla þar sem Stjarnan vann 14 stiga sigur á Grindavík, 75-89. Ægir skoraði 19 stig og gaf 14 stoðsendingar.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en í þeim seinni sigu Stjörnumenn fram úr.

„Við unnum þetta á breiddinni. Margir lögðu í púkkið, bæði í vörn og sókn. Ég held að það hafi komið sjá þreyta í þá þegar leið á leikinn og þeir settu ekki öll skotin niður sem þeir gerðu í fyrri hálfleik,“ sagði Ægir við Vísi eftir leik.

„Það gerði gæfumuninn og við fráköstuðum betur. Þetta var nokkuð svipaður leikur og í undanúrslitunum. Við héldum dampi og lönduðum svo sigrinum.“

Ægir segir að Grindvíkingar hafi verið erfiðir viðureignar í dag.

„Ég var drullusmeykur í sannleika sagt. Þeir eru hættulegir og maður veit aldrei hvað maður fær frá þeim. Þeir lúra bara og setja svo niður þrista,“ sagði Ægir.

Stjörnumenn hittu afar illa fyrir utan í fyrri hálfleik en skotin rötuðu rétta leið í þeim seinni.

„Það opnaðist fyrir þetta og við náðum sóknarfráköstum þótt við höfum klikkað á skotum. Við héldum dampi,“ sagði Ægir.

Stjarnan hefur orðið bikarmeistari tvö ár í röð og varð auk þess deildarmeistari í fyrra. Ægir vonast til að fleiri titlar komi í Garðabæinn í vetur.

„Heldur betur. Við ætlum að gera betur en í fyrra og auðvitað er markmiðið að vinna alla titla sem í boði eru,“ sagði Ægir að endingu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.