Handbolti

Vand­ræða­laust hjá Hauka­stelpunum sem eru síðasta liðið í Höllina

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara Odden átti flottan leik í kvöld.
Sara Odden átti flottan leik í kvöld. vísir/bára

Haukar urðu í kvöld síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Coca-Cola bikar kvenna er liðið vann stórsigur á 1. deildarliði Fjölnis, 33-20.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en þá skildu leiðir. Haukarnir breyttu stöðunni úr 4-4 í 10-4 og voru 16-9 yfir í hálfleik.

Þær héldu heimastúlkum í þægilegri fjarlægð frá sér í síðari hálfleik og sigurinn aldrei í hættu. Lokatölur 33-20.

Berta Rut Harðardóttir var frábær í liði Hauka. Hún skoraði tíu mörk úr tíu skotum en Sara Odden skoraði fimm. Saga Sif Gísladóttir varði helming þeirra skota sem hún fékk á sig í markinu.

Guðrún Jenný Sigurðardóttir var í sérflokki í liði Fjölnis en hún skoraði níu mörk. Samherjar hennar náðu ekki að fylgja henni eftir en Kolbrún Arna Garðarsdóttir skoraði þrjú mörk.

Það verða því Haukar, Valur, Fram og KA/Þór sem verða í úrslitahelginni í Höllinni í byrjun mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×