Enski boltinn

Tottenham og Arsenal sögð hafa áhuga á leikmanni Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Lallana fagnar síðasta titli með Liverpool þegar liðið varð heimsmeistari félagsliða. Hann yfirgefur líklega félagið sem enskur meistari, Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða.
Adam Lallana fagnar síðasta titli með Liverpool þegar liðið varð heimsmeistari félagsliða. Hann yfirgefur líklega félagið sem enskur meistari, Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða. Getty/ David Ramos

Adam Lallana er að öllum líkindum á sínu síðasta tímabili með Liverpool en samningur hans rennur út í sumar. Fullt af liðum í ensku úrvalsdeildinni hafa áhuga á að fá hann á frjálsri sölu.

Telegraph segir frá því að Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City, vilji fá Lallana til sín en að stórliðin Tottenham og Arsenal hafi einnig áhuga á honum sem og West Ham.  

Adam Lallana þekkir náttúrulega mjög vel til Rodgers eftir tíma þeirra saman hjá Liverpool liðinu. Rodgers keypti Adam Lallana frá Southampton fyrir 25 milljónir punda sumarið 2014.

Adam Lallana er 31 árs gamall og hefur aðeins spilað fyrir Southampton (2006-2014) og Liverpool (2014-) fyrir utan að hafa verið lánaður til Bournemouth í smá tíma þegar hann var nítján ára gamall.



Það er ekkert að frétta af nýjum samningi fyrir Adam Lallana hjá Liverpool en hann skrifaði undir núverandi samning sinn í febrúar fyrir þremur árum síðan. Allt lítur því út fyrir að lið geti fengið hann frítt eftir 30. júní.

Adam Lallana hefur spilaði þrettán leiki með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en komið inn á sem varamaður í tíu þeirra.

Jürgen Klopp hefur líka tekið hann af velli í öllum þremur leikjunum sem hann hefur byrjað en Lallana var síðast í byrjunarliðinu í 1-0 sigri á Úlfunum 29. desember síðastliðinn. Adam Lallana fékk heldur ekki eina mínútu í sex leikjum Liverpool í Meistaradeildinni.

Besta tímabil hans með Liverpool var þegar hann var með 8 mörk og 7 stoðsendingar 2016-17 en hann missti af stórum hluta tímabilsins á eftir vegna meiðsla. Adam Lallana var fastamaður í enska landsliðshópnum frá 2015 til 2017 og skoraði í þremur landsleikjum í röð árið 2016 en hefur ekki verið valinn í landsliðið að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×